Landsæfing björgunarsveita haldin á Suðurnesjum á morgun
Á morgun, laugardaginn 24. október, verður landsæfing björgunarsveita haldin á Suðurnesjum. Það er Slysavarnarfélagið Landsbjörg, í samstarfi við björgunarsveitir á svæðinu, sem heldur æfinguna að þessu sinni en hún er haldin á tveggja ára fresti og er langviðamesta æfing björgunarsveita landsins.
Að þessu sinni eru skráðir tæplega 350 þáttakendur úr björgunarsveitum af öllu landinu auk búnaðar og björgunartækja sem skipta tugum. Æfingin skiptist í leitar-, skyndihjálpar-, og fjallabjörgunarverkefni ásamt almennum tækjaverkefnum og umfangsmiklum rústabjörgunaræfingum. Að verkefnunum koma einnig um 60 manns frá björgunarsveitunum á Suðurnesjum og um 70 „sjúklingar“ sem koma úr röðum unglingadeilda. Kvennadeildirnar Þórkatla og Dagbjörg sjá svo um að mannskapurinn fái næringu á meðan á æfingunni stendur og eftir hana.
Æfingin hefst klukkan 8:00 að morgni laugardagsins og stendur eitthvað fram eftir degi. Æfingasvæðið nær allt frá Vatnsleysuströnd til vesturs að Sandgerði og til suðurs að Grindavík þannig að búast má við töluverðri umferð björgunartækja á því svæði á meðan á æfingunni stendur en alls verða keyrð 55 verkefni þennan dag.