Landrisið stöðvast og gengið örlítið til baka
Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands greinir frá því í færslu á Facebook í dag að hraðinn á landrisinu við Þorbjörn breyttist skyndilega í dag m.v. gps mælingar. Landrisið virðist skv. gps mæligögnum dagsins í dag hafa stöðvast og gengið örlítið til baka.
Skýringar á því geta verið ýmsar t.a.m. gæti innstreymi kviku hafa hægst á svæðið í kringum Þorbjörn og Svarstengi. Einnig gæti verið svo að kvika sé byrjuð að troða sér ofar í skorpuna og við það losnar um þrýsting í kvikhólfum og land sígur lítið eitt á móti.
Í færslu hópsins segir að þess verður þó að geta að enginn órói hefur mælst sem gefur helst til kynna að gos sé að hefjast. „Það er hins vegar mjög áhugavert að skoða að landris við Fagradalsfjall hefur stöðvast eftir að landris hófst við Þorbjörn og Svartsengi. Þetta segir okkur að kvikuvirknin á Reykjanesinu hefur færst svolítið úr stað,“ segir Eldfjalla- og náttúruvárhópur Suðurlands í færslu sinni í morgun.