Fréttir

Landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi
Mánudagur 12. febrúar 2024 kl. 12:17

Landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi

Atburðarrásin heldur áfram og búast má við nýju kvikuhlaupi og einnig eldgosi

Landris heldur áfram á svæðinu við Svartsengi. Land rís um 0,5 – 1,0 cm á dag sem er svipaður hraði og eftir síðustu eldgos. Kvika heldur því áfram að safnast í kvikuhólfið undir Svartsengi. Það eru því miklar líkur á að atburðarrásin endurtaki sig eftir nokkrar vikur með nýju kvikuhlaupi og eldgosi, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Frá því á hádegi 8. febrúar hefur jarðskjálftavirkni verið á svæðinu norðan Grindavíkur minniháttar, en um 50 smáskjálftar hafa mælst, allir um eða undir 1,0 að stærð. Einnig hefur verið smáskjálftavirkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, en þar mældust rúmlega 100 skjálftar, flestir um eða undir 1,0 að stærð. Þar hefur smáskjálftavirkni verið viðvarandi síðustu vikur en dýpi skjálftanna er um 6 – 8 km. 

Uppfært hættumatskort verður birt seinna í dag.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Færslur á GPS stöðinni SENG í Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (11. febrúar) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á síðustu þremur eldgosum (18. desember 2023, 14. janúar og 8. febrúar 2024).