Landris hafið að nýju og hundruð skjálfta við Grindavík
Í nótt kl. 02:04 varð skjálfti af stærð M2,8 um 3 km VSV af Reykjanestá og fannst hann í byggð. Laugardaginn 30. maí jókst jarðskjálftavirkni í nágrenni Grindavíkur og voru staðsettir um 300 skjálftar þann dag.
Stærsti skjálftinn var 2,7 að stærð. Einnig var skjálfti af stærð 2,5 aðfaranótt 31. maí sem fannst í Grindavík.
Heldur hafði dregið úr skjálftavirkni á Reykjanesskaga síðustu vikur en rúmlega 120 jarðskjálftar mældust þar í síðustu viku (20.-27. maí).
Samkvæmt gögnum frá 26. maí sl. eru vísbendingar um að landris sé hafið að nýju við Þorbjörn, þó hægt sé. Meiri gögn þarf til að fullyrða frekar um núverandi ferli og þær hættur sem því fylgja, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Óvissustig vegna landriss er enn í gildi hjá Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra.