Landris á stöðugum hraða
Eldgosið sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni þann 29. maí hefur nú staðið í rétt rúmar þrjár vikur og áfram gýs úr einum gíg rétt austan Sundhnúks. Hrauntungan norðan Sýlingarfells heldur áfram að þykkna en á þriðjudaginn 18. júní, fór hraunspýja frá henni yfir varnargarð L1 sem er norðaustur af Svartsengi, en fór ekki langt.
Eins og undanfarna daga mælist áfram landris á stöðugum hraða í Svartsengi þótt eldgos sé enn í gangi. Það má túlka þetta sem svo að kvikuflæði frá dýpi haldi áfram og sé meira en flæði frá gígnum og kvikusöfnun undir Svartsengi haldi því áfram eins og áður, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
Veðurspáin í dag er sunnan og síðar suðaustan 3-8 m/s. Gas berst til norðurs og norðvestur í átt að Reykjanesbæ og Vogum. Á morgun (föstudag) er austan og síðar norðaustan 3-8 m/s, gas berst til vesturs og suðvesturs. Hæg breytileg átt seinnipartinn á morgun, gasmengunar getur orðið vart víða á suðvesturhorninu.
Hættumat hefur verið uppfært og er óbreytt. Það gildir, að öllu óbreyttu, til næsta þriðjudags 25. júní.
(Smellið á kortið til að sjá stærra)