Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landnámsskáli grafinn upp í Höfnum
Miðvikudagur 20. maí 2009 kl. 11:24

Landnámsskáli grafinn upp í Höfnum

-með elstu staðfestu mannvistarleifum sem fundist hafa á Íslandi


Nú í vikunni hófst fyrsta fornleifarannsóknin á landnámsskálanum í Höfnum en rústir hans fundust árið 2002 fyrir aftan Kirkjuvogskirkju.

Með sýnum teknum úr  eldstæði í gólfi skálans var staðfest að hann væri ekki yngri en frá árinu 900. Þannig er hann með elstu staðfestu mannvistarleifum sem fundist hafa á Íslandi. Eftir að farið var yfir svæðið með jarðsjártæki og það kortlagt sáust fyrir utan skálann fleiri rústir sem talið er að séu útihús og skemmur.

Fornleifarannsóknin er á vegum Byggðasafns Reykjanesbæjar sem fékk styrk til hennar frá Menningarráði Suðurnesja.

„Ljóst er að íbúarnir hafa yfirgefið bústaðinn tiltölulega snemma í byggðasögunni. Eftir það hefur aldrei verið búið eða byggt á þessu svæði. Þetta er því mikill happafengur fyrir okkur öll, að finna ómengað býli frá fyrstu tíð, inn í þorpinu miðju þannig að allir geta notið þess að skoða þessar rústir. En það háir einmitt mörgum svona rannsóknum að fjarlægja þarf yngri minjar sem liggja ofan á þeim elstu með tilheyrandi kostnaði, auk þess sem yngri byggingarframkvæmdir hafa skaðað elstu minjarnar, oftast eru því svona gamlar óhreyfðir minjar fjarri alfaraleið,“ segir Sigrún Ásta Jónsdóttir, forstöðumaður Byggðasafnins.

Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson hafi fengið land frá fóstbróður sínum Ingólfi Arnarssyni milli Vágs og Reykjaness, sem venjulega er túlkað sem landið sem Hafnahreppur náði yfir. Möguleiki er að hér sé því kominn bústaður Herjólfs, sem var langafi Bjarna Herjólfssonar sá sem fyrstur (ásamt áhöfn sinni) Evrópumanna leit meginland Ameríku augum.

Það er Fornleifafræðistofan undir stjórn dr. Bjarna F. Einarssonar, fornleifafræðings, sem stjórnar rannsókninni, en með þeim verða nemar í fornleifafræði við Háskóla Íslands sem eru í verklegu námi. Samstarf hefur náðst um þetta verkefni við Keili og gista nemendurnir í húsnæði Keilis á meðan á rannsókninni stendur. Sigrún Ásta segist vona  að þetta sé aðeins upphafið af árlegri komu slíkra nema hingað á svæðið.


Efri mynd: Á meðan blaðamaður staldraði við í morgun fannst hnífsblað í grunni útihúss. Það er fyrsti gripurinn sem finnst við fornleifauppgröftinn í Höfnum. VFmynd/elg.



Landnámsskálinn er fyrir aftan Kirkjuvogskirkju og er um margt merkilegur að sögn dr. Bjarna F. Einarssonar. Einungis þrisvar sinnum áður hefur loftrás frá eldstæði verið grafin út. VFmynd/elg



Hér sést horn við útvegg skálans. Svarta lagið í jarðveginum er gjóska frá Reykjaneseldum á þrettándu öld. VFmynd/elg.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024