Landlæknir kannar andlát barns
Embætti landlæknis hefur nú til meðferðar mál barns er lést nýlega á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, skömmu eftir erfiða fæðingu á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, en frá þessu er greint í Morgunblaðinu í morgun. Sigurður Guðmundsson landlæknir staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið en vildi ekki tjá sig um málsatvik. Sagði landlæknir að embættinu hefði lögum samkvæmt borist tilkynning um atvikið eins og öll önnur er vörðuðu sviplega atburði eða óvænt dauðsföll í heilbrigðiskerfinu. Rannsakað yrði m.a. hvort andlát barnsins mætti rekja til rangrar læknismeðferðar. Leitað yrði upplýsinga frá heilbrigðisstofnunum og foreldrum barnsins. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins gekk fæðing barnsins mjög erfiðlega og til að lina verki móðurinnar fékk hún deyfingu í legháls. Barnið var svo tekið með bráðakeisaraskurði á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var flutt fljótlega eftir það ásamt móðurinni með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Barnið lést svo á Landspítalanum skömmu síðar. Konráð Lúðvíksson, yfirlæknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, staðfesti þessi málsatvik við Morgunblaðið. Hann benti á að þetta atvik tengdist deyfingunni og að deyfingar í legháls yrðu lagðar af við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja þar til annað kæmi í ljós. Að öðru leyti vildi hann ekki tjá sig á meðan atvikið væri til meðferðar hjá landlækni. Konráð var ekki á vakt daginn sem barnið fæddist.
Fleiri fréttir á mbl.is