Landhelgisgæslan mátar Keflavíkurhöfn
Suðurnesjamenn hafa í gegnum árin sýnt Landhelgisgæslunni áhuga og viljað starfsemi hennar til Suðurnesja. Ályktað hefur verið um málið á ýmsum stigum stjórnsýslunnar. Landhelgisgæslan er með talsverða starfsemi á Keflavíkurflugvelli en skipaflotinn hefur ennþá heimahöfn í Reykjavík.
Sigurður Steinar Ketilsson, fyrrverandi skipherra, lýsti því yfir í samtali við Suðurnesjamagasín Víkurfrétta í síðustu viku að hann væri talsmaður þess að varðskipin hefðu heimahöfn í Keflavíkurhöfn. Hann hafði það sitt síðasta verk hjá Landhelgisgæslunni á dögunum að sigla varðskipinu Þór í höfn í Keflavík og varðskipið Týr fylgdi honum í höfn. Fór vel um varðskipin tvö í höfninni.
Nú, nokkrum dögum síðar, er varðskipið Týr aftur komið til hafnar í Keflavíkurhöfn og hefur legið í höfninni í sólarhring. Yfirleitt er ekki spurt um erindi þessara skipa og því best að draga bara þá ályktun að Landhelgisgæslan sé að máta Keflavíkurhöfn sem framtíðar heimahöfn fyrir varðskipin.