Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Landeigandi lokar veginum að Keili
Fimmtudagur 19. júlí 2007 kl. 14:08

Landeigandi lokar veginum að Keili

Útivistarfólki sem ætlaði sér að ganga á Keili í gær var meinað að aka veginn frá Reykjanesbrautinni í átt að fjallinu. Landeigandinn hyggst setja þar hlið til að takmarka umferð. Hann er ósáttur við tillögur bæjarstjórnar Voga um skipulag á svæðinu. Þetta kemur fram í fréttum RUV í dag.

Landeigandinn að Stóru Vatnsleysu hefur lokað veginum á meðan sett verður upp hlið og stóðu framkvæmdir yfir í gær. Hann segist ekki hafa ákveðið hvernig umferð um veginn verði háttað, þetta sé einkavegur í hans eign, gerður og viðhaldið af honum sjálfum. Hliðið sé sett upp sem svar við friðlýsingaráformum bæjarstjórnarinnar í Vogum á landi hans, segir í frétt RUV.

Þar segir ennfremur að samkvæmt drögum að nýju aðalskipulagi Voga sé stærsti hluti landsvæðisins austan Reykjanesbrautar skilgreint sem vatnsverndarsvæði og stór hluti falli undir svokallaða hverfisvernd í skipulaginu. Samkvæmt þeirri skilgreiningu verði óheimilt að raska landslagi, jarðmyndunum og gróðri með námuvinnslu, vegagerð eða byggingum.

Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri í Vogum, segir í samtali við fréttastofu Ruv að skipulagið sé sett fram í þeim tilgangi að minnka það svæði þar sem efnistaka hafi verið enda hafi í auknum mæli verið tekið efni víðs vegar á svæðinu og koma þurfi böndum á það. Stór náma sé á umræddu svæði og verði áfram gert ráð fyrir henni en deilt sé um framtíðarstærð hennar. Meðal annars hafi efni úr þeirri námu verið notað við tvöföldun Reykjanesbrautar að undanförnu.

Róbert segir sveitarfélagið ekki í neinu stríði við landeigendur, þeim sé sjálfsagt að gera athugasemdir við drögin að aðalskipulaginu og hann kalli raunar eftir þeim athugasemdum. Skipulagið sé í frumvinnslu og enn eigi eftir að ræða það, m.a. í bæjarstjórn, áður en það fer í auglýsingu í haust. 

Mynd: Mjög vinsælt er að ganga á Keili en það er vandkvæðum bundið þessa dagana vegna óánægju landeiganda.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024