Land rís og fundað með íbúum Grindavíkur
Boðað hefur verið til íbúafundar í Grindavík í kvöld kl. 19:30. Fundurinn verður í íþróttahúsinu í Grindavík og fundarefnið er óvissustig almannavarna vegna jarðskjálfta við Grindavík.
Fundurinn verður einnig í beinu streymi á vef Grindavíkurbæjar. Í lok fundarins verður samantekt á pólsku fyrir pólskumælandi íbúa.
Búast má við fjölmennum fundi og fólk er því hvatt til að skilja bílinn eftir heima. Bæjaryfirvöld minna þó á stór bílastæði t.d. við Hópið, á tjaldsvæðinu og við verslunarmiðstöðina.
Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Víkurfréttir að GPS-stöðin á Þorbirni hafi risið um 20–30 mm frá mánaðamótum og er enn á uppleið. Benedikt segir að landris eða þennsla með miðju rétt norð-vestan við Þorbjörn hafi hafist um mánaðamótin.
„Því svipar mjög til þess sem mældist í byrjun árs 2020. Stærsta lóðrétta færslan sést á GPS-stöð sem er ofan á Þorbirni en á öðrum stöðvum eru láréttar færslur meira áberandi. GPS-stöðin á Þorbirni hefur núna risið um 20–30 mm og er enn á uppleið,“ segir Benedikt.
Hann segir líkön benda til að þetta sé líklega kvika að safnast fyrir á um 4–5 km dýpi þar sem lögun og umfang þess er mjög sambærilegt og í upphafi árs 2020.
„Það er ekki nokkur leið að spá fyrir um framhaldið en þetta gæti þróast svipað eins og 2020 en líka þróast í frekari innskotavirkni eða eldgos. Það er þó ekkert að benda til þess á þessari stundu,“ segir Benedikt G. Ófeigsson, sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofunni.
Jarðskjálftavirkni heldur áfram á Reykjanesskaga og hafa verið yfir 3.000 skjálftar á svæðinu við Eldvörp á Reykjanesi undanfarna viku. Talið er að mesta skjálftavirknin sé á 4–6 km dýpi.
Á vef Veðurstofu Íslands segir að samkvæmt GPS-mælaneti á Reykjanesskaganum og InSAR-gervihnattamyndum eru færslur á yfirborði jarðar sem sýna þenslumerki sem bendir til kvikusöfnunar vestur af Þorbirni. Samkvæmt frumniðurstöðum er þetta á 4–5 km dýpi.
Gervitunglamyndir sýna sambærilegar breytingar
InSAR-gervitunglamyndir sem spanna tímabilið 29. apríl til 7. maí og 21. apríl til 8. maí, sýna sambærilegar breytingar og mælst hafa á GPS-stöðvunum. „Það sem við höfum lært af eldsumbrotunum á Reykjanesskaga er að aukning í skjálftavirkni og aflögun getur verið fyrirvari eldgoss, en þá er það alls ekki alltaf raunin“, segir Michelle Maree Parks en Michelle er ein af vísindamönnum í aflögunarteymi Veðurstofunnar sem fylgist meðal annars með landrisi. „Eins og oft áður þurfum við hreinlega að sjá hver þróunin verður. Við erum að keyra líkön til að meta t.d. á hvaða dýpi kvikan er á þessu tiltekna svæði. Eins eigum von á nýjum InSAR-myndum síðar í mánuðinum og þær eru hluti af þeim gögnum sem við munum vinna úr til að átta okkur betur á þróuninni á svæðinu við Svartsengi,“ segir Michelle.
Flugkóði á gulan lit
Í ljósi kvikusöfnunar og þenslumerkja á Reykjanesi hefur VONA-fluglitakóðinn verið færður frá grænu yfir á gulan.
Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum hafa lýst yfir óvissustigi almannavarna frá og með 15. maí.