Lánadrottnar Reykjaneshafnar fá lengri umhugsunarfrest
Reykjaneshöfn hefur í samráði við kröfuhafa ákveðið að breyta tillögu sinni sem snýr að því að skapa svigrúm fyrir höfnina og marka nýja stefnu sem tryggja á fullar heimtur fyrir lánadrottna.
Samkvæmt breytingunni er frestur kröfuhafa til að samþykkja tillöguna lengdur og verður til og með 30. nóvember 2010 í stað 17. nóvember Af þessu leiðir að Reykjaneshöfn mun tilkynna um afdrif tillögunnar þann 1. desember 2010 í stað 18. nóvember 2010, segir í tilkynningu frá Reykjaneshöfn.
Þá er að ósk kröfuhafa bætt inn í tillöguna ákvæði þess efnis að allir kröfuhafar hafi rétt til gjaldfellingar krafna sinna þann 1. maí 2011 ef ekki tekst að koma fjármálum Reykjaneshafnar í viðundandi horf fyrir þann tíma.
Forsvarsmenn Reykjaneshafnar og lánveitendur hennar komu saman til fundar í gær. Tilgangur hans var að upplýsa lánveitendur um aðdraganda og orsakir þeirra greiðsluerfiðleika sem Reykjaneshöfn er í. Farið var yfir þá stöðu sem myndast hefur og væntingar til framtíðar miðað við óbreytta stefnu.
Jafnframt lögðu forsvarsmenn Reykjaneshafar fyrir lánveitendur tillögu sem snýr að því að skapa svigrúm fyrir höfnina til að marka nýja stefnu sem tryggja á fullar heimtur fyrir lánadrottna.
Meginatriði tillögunar eru m.a. fólgnar í því að engar greiðslur eða greiðslur vaxta og afborgana verði fyrr en 1. maí á næsta ári. Yfirstandandi fjárfestingaverkefni verða stöðvuð og engin ný verkefni sett í gang. Nauðsynlegt er að allir kröfuhafar samþykki tillöguna formlega.