Lán Kölku lækkar um 337 milljónir króna
Verulegar umbætur hafa orðið í rekstri Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja, Kölku, á kjörtímabilinu. Lán félagsins hafa lækkað um nær 700 milljónum króna og farið úr um 1300 milljónum í um 600 milljónir króna. Á dögunum lækkuðu lán sem Kalka er með hjá Íslandsbanka um næstum 337 milljónir kóna við endurútreikning.
Lánsfjárhæðin fór úr kr. 858.407.310 kr. 521.577.740 eða um kr. 336.829.570. Bankinn hefur gert drög að uppgjörssamningi við Sorpeyðingarstöð Suðurnesja sem gerir m.a. ráð fyrir að aðilar falli frá frekari ágreiningi um lögmæti lánsins með þessari niðurstöðu. Ráðgjafar Ernst&Young hafa yfirfarið aðferðarfræði og forsendur endurútreiknings bankans og þeirra álit er að endurútreikningurinn sé í samræmi við ákvæði laga og nýlega dóma Hæstaréttar í sambærilegum málum og því geri þeir ekki athugasemdir.
Sömu sorphirðu- og sorpeyðingargjöld verða hjá sveitarfélögunum á árinu 2014 eins og þau hafa verið á árinu 2013 og voru á árinu 2012. Verulegar umbætur í rekstri fyrirtækisins ásamt því að nú hefur verið staðfestur nýr lánssamningur við Íslandsbanka með lækkun á lánastöðu fyrirtækisins um tæplega 340 milljónir króna gerir kleift að halda óbreyttum gjöldum þriðja árið í röð. Þess má geta að almennar verðlagsbreytingar frá ársbyrjun 2012 til dagsins í dag hafa hækkað um 7,6%.
Í fjárhagsáætlun Sorpeyðingarstöðvar Suðurnesja fyrir árið 2014 er m.a. gert ráð fyrir minni viðhaldskostnaði enda er nú búið að endurnýja marga mjög kostnaðarsama þætti á .l. tveimur árum og vinna mikið fyrirbyggjandi viðhald.
Vegna væntanlegs kostnaðar við frágang og eyðingu flugöskubirgðanna, sem greint er frá í annarri frétt hér á vf.is, er gert ráð fyrir tímabundnu láni hjá Íslandsbanka til greiðslu á hluta þess kostnaðar.