Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Lagt hald á tugi ólöglegra loftskotvopna í Leifsstöð í sumar
Föstudagur 19. ágúst 2005 kl. 10:45

Lagt hald á tugi ólöglegra loftskotvopna í Leifsstöð í sumar

Enn eitt sumarið er fjöldi fólks á leið heim frá Spáni tekinn með ólöglegar loftskammbyssur í Leifsstöð. Fólk telur byssurnar leikföng en þær eru í raun stórhættuleg vopn. Dæmi eru um að 10 ára börn hafi haft slíkar byssur undir höndum að því er fram kemur í frétt vefsvæði Morgunblaðsins. Að sögn Kára Gunnlaugssonar, aðaldeildarstjóra hjá Tollgæslunni á Keflavíkurflugvelli, hefur innflutningur á byssunum verið mikið vandamál undanfarin sumur. Foreldrar ýmist kaupa byssurnar handa börnum sínum erlendis en átta sig ekki á að verið sé að brjóta vopnalög þegar byssurnar eru teknar með heim, eða börnin sjálf kaupa byssurnar án vitneskju foreldranna, að sögn Kára. Þegar vopnin síðan finnast í farangri er niðurstaðan ávallt sú sama: 5 þúsund króna sekt og byssan er tekin af viðkomandi.

Hægt er að hlaða byssurnar með plastkúlum og eru vopnin nægilega kraftmikil til að valda örkumlum ef skotið er á einhvern af stuttu færi.Dæmi eru um að börn hafi skotið hvert annað og slasað með slíkum byssum hérlendis en í Bretlandi var 27 ára gamall maður nýlega handtekinn fyrir að skjóta tveggja ára gamalt barn til bana með loftbyssu. Einnig er hægt að hlaða byssurnar með blýhöglum og þarf þá ekki frekari vitnanna við til að sjá hvílík skaðræðisvopn er um að ræða.

Undanfarin ár hafa allt upp í 50 byssur verið teknar af fólki og langmest í júlí og ágústmánuði. Einhver fjöldi byssa virðist sleppa inn í landið því heyrst hefur af börnum leika sér með slík vopn í Reykjavík og nágrenni. Í júní sl. voru piltar á ferð í Garðabæ með loftbyssur og skutu á börn en þeir fundust ekki þrátt fyrir leit lögreglunnar. Þá varð slys á ungu barni fyrir nokkrum misserum í Hafnarfirði þegar skotið var á það með loftbyssu. Í sumar hefur einnig heyrst af byssuæði drengja í Vesturbæ Reykjavíkur.

Þótt læknar á slysadeild Landspítalans hafi ekki fengið alvarleg eða mörg slysatilvik vegna loftbyssa, er hættan engu að síður fyrir hendi eins og dæmin hafa sýnt.

„Því miður virðist það vera raunin að foreldrar kaupa þessi vopn handa börnum sínum eða börnin kaupa þau sjálf án vitneskju foreldranna,“ segir Kári Gunnlaugsson. „Dæmi eru um að allt niður í 10 ára gömul börn hafi haft þessi vopn undir höndum.“

Kári segir fólk yfirleitt bera við þekkingarleysi þegar upp kemst um málin og segist ekki hafa gert sér grein fyrir alvöru málsins.

„Þessar byssur eru stórhættulegar þótt ekki sé um „alvöru“ vopn að ræða,“ segir Kári.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024