Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lærdómsrík æfing Björgunarsveitarinnar Suðurnes
Þriðjudagur 19. apríl 2005 kl. 21:17

Lærdómsrík æfing Björgunarsveitarinnar Suðurnes

Björgunarsveitin Suðurnes tók nýlega þátt í viðamikilli Almannavarnaræfingu í Hvalfjarðargöngum. Fékk björgunarsveitin það hlutverk að vera í teymi með læknum frá sjúkrahúsinu á Akranesi og greiningasveit Landspítalans. Æfingin var haldin til að samhæfa viðbrögð vegna hópslyss en sviðsettur var árekstur í Hvalfjarðargöngum þar sem rúta og tveir fólksbílar rákust saman neðst í göngunum. Sérhannaður greiningabúnaður frá Björgunarsveitinni Suðurnes var notaður við æfinguna.

Markmið æfingarinnar var að láta reyna á viðbragðsáætlun Hvalfjarðargangna sem tók gildi í maí 2004. Björgunarsveitin Suðurnes kom greiningarbúnaði sínum fyrir norðan megin við göngin en búnaður þessi samanstendur af tveimur 35 m2 upphituðum tjöldum og inni í þeim er fullkominn sjúkrabúnaður til þess að taka á móti 100 manna slysi.

Sigurður Baldur Magnússon, formaður Björgunarsveitarinnar Suðurnes, var ánægður með reynsluna sem hlaust af æfingunni. „Þetta gekk mjög vel og okkar verkefni var að taka á móti 45 sjúklingum sem höfðu lent í slysinu inni í göngunum og meta hvort ætti að flytja þau á brott með þyrlu eða sjúkrabíl. Það er alltaf gaman að vinna með læknateymum og það er mjög lærdómsrík að taka á móti svo mörgum sjúklingum á sama tíma,“ sagði Sigurður í samtali við Víkurfréttir en björgunarsveitin ásamt læknateyminu frá Akranesi og Reykjavík tók á móti 45 sjúklingum á tæpum tveimur klukkustundum.

Meðal þeirra sem tóku þátt í æfingunni voru Neyðarlínan, slökkvilið og lögregla beggja vegna Hvalfjarðar, embætti ríkislögreglustjóra, Sjúkrahús og heilsugæslustöðin Akranesi, Landspítalinn-Háskólasjúkrahús, Landhelgisgæslan, björgunarsveitir, Rauði krossinn og Spölur. Að auki komu tugir manna af Akranesi og úr Reykjavík að æfingunni sem leikarar í hlutverkum slasaðra.

VF-myndir/ http://www.bjsudurnes.is/


 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024