Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Læknar tíðir gestir í flugvélum á Keflavíkurflugvelli vegna lungnabólguótta
Þriðjudagur 29. apríl 2003 kl. 11:55

Læknar tíðir gestir í flugvélum á Keflavíkurflugvelli vegna lungnabólguótta

Læknar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hafa nokkrum sinnum á síðustu vikum verið kallaðir út á Keflavíkurflugvöll vegna gruns um að flugfarþegi sé smitaður af bráðalungnabólgunni. Í engum tilfellum hefur læknisskoðun leitt í ljós að um sýkingu sé að ræða. Sigurður Árnason læknir á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja segir að þegar torkennileg veiki komi upp í heiminum þá séu sóttvarnareglur skerptar og að flugfarþegar hafi meiri vara á sér. Í kjölfar lungnabólgufaraldursins hafa tilkynningar frá flugáhöfnum flugvéla sem lenda á Keflavíkurflugvelli aukist og segir Sigurður að hvert tilfelli sé skoðað. Allt upp í 3 tilfelli hafa verið tilkynnt á viku undanfarið. „Þegar tilkynnt er um sjúkan mann í vel þá fer sérstakt ferli í gang þar sem við skoðum m.a. hvaðan vélin sé að koma og hvaðan einstaklingurinn er að koma, hvaða einkenni hann er með og hvort hann sé með hita. Af þessari skoðun ræðst svo framhaldið.“ Að sögn Sigurðar er ýtrustu varkárni gætt þegar tilfelli af þessu tagi koma upp. Sjúkraliðsmenn sem áður fóru einir á Keflavíkurflugvöll til að ná í sjúkan einstakling hafa nú ávallt heilbrigðisstarfsmann með í för og segir Sigurður að þessar reglur hafi verið settar í kjölfar lungnabólgufaraldursins og að þær verði í gildi næstu sex mánuði.

Heilbrigðisstofnun Suðurnesja mun taka á móti einstaklingum sem grunaðir eru um að vera smitaðir af lungnabólgunni og að sögn Sigríðar Snæbjörnsdóttur framkvæmdastjóra HSS hefur starfsfólkinu verið kynnt allar varúðarráðstafanir. „Fulltrúar sóttvarnadeildar Landlæknisembættisins hafa verið með fræðslu fyrir okkar starfsfólk og það er búið undir að taka á móti einstaklingi sem smitaður er af bráðalungnabólgunni.“

Sigríður segir að hugsanlegt sé að sjúklingur sem greinist með sjúkdóminn verði lagður inn á HSS til frekari aðhlynningar. „Sjúklingur sem grunaður er um að vera smitaður af sjúkdómnum verður skoðaður hér og ákvörðun tekin í framhaldinu hvort viðkomandi verður fluttur áfram til Reykjavíkur. Ég vil bara ítreka það að starfsfólk HSS er undirbúið undir að taka á móti slíkum sjúklingum og varúðarráðstafanir eru miklar.“
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024