Læknamafía með Suðurnesjamenn í gíslingu?
Skellt verður í lás á skurðstofum Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja 1. maí nk. og við það mun fæðingardeild lamast og engar skurðaðgerðir fara fram í tveimur skurðstofum á nýlegri og vel útbúinni 3. hæð stofnunarinnar. Ekkert virðist hafa gerst í lausn fyrir HSS frá borgarafundi með heilbrigðisráðherra fyrr í vetur.
Eins og heilbrigðisráðherra benti á í sínu máli á borgarafundinum þá liggur vandi HSS að miklu leyti í ójafnvægi milli starfsemi sjúkrahúss og heilsugæslu en sjö heilsugæslulæknar fá greiðslur sem ætlaðar eru 17 læknum. „HSS er fast í klafa læknamafíu sem er með Suðurnesjamenn í gíslingu,“ sagði ónefndur starfsmaður á HSS en mikil óánægja ríkir innanhúss með aðgerðarleysi í vanda stofnunarinnar. Svo virðist sem yfirstjórn hennar ráði engan veginn við þennan mikla vanda. Ráðherra benti á það í vetur.
Fæðingardeild HSS blæðir nú hægt og bítandi út og fæðandi konur eru farnar að leita til annarra stofnana, upp á Akranes og til Reykjavíkur þar sem öryggi er meira, sérfræðingar á vakt og skurðstofur opnar. Á Selfossi hefur tekist að halda skurðstofu opinni á dagvinnutíma en því er ekki að fagna í Keflavík. Nú munu Suðurnesjamenn þurfa að fara annað ef þeir þurfa að fara í aðgerð, hversu stór sem hún er. Allar aðgerðir sem þurfa svæfingu hverfa héðan en skurðlæknar sem hafa sinnt þessari þjónustu fara á biðlaun 1. maí og munu líklega hverfa alveg héðan vegna verkefnaskorts.
Fæðingardeild mun loka alveg í júlí í sumar en það er eitthvað sem íbúar hér eiga víst að venjast og bætir bara gráu ofan á svart í þessari stöðu. Víkurfréttir hafa fengið margar ábendingar að undanförnu um lélega þjónustu á heilsugæslu HSS. Sjúklingar fá að heyra að það sé svo mikið álag á þessum fáu læknum. Hvað eftir annað er þeim vísað til Reykjavíkur.
„Þetta er ótrúleg staða árið 2010 og ömurlegt að upplifa þetta. Hvers eiga Suðurnesjamenn að gjalda. Mun unga fólkið búa hér við þessar aðstæður. Sættum við okkur við þetta í nútíma þjóðfélagi?“, sagði annar óánægður starfsmaður við Víkurfréttir.