Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lækkun lífeyrissjóðsréttinda vekur hörð viðbrögð
Fimmtudagur 10. nóvember 2005 kl. 16:59

Lækkun lífeyrissjóðsréttinda vekur hörð viðbrögð

Ákvörðun Lífeyrssjóðs Suðurlands um að lækka réttindi sjóðsfélaga sinna um 16 % frá og með síðustu mánaðarmótum hefur vakið hörð viðbrögð meðal sjóðsfélaga.

Í samtali við Víkurfréttir sagði Friðjón Einarsson, framkvæmdastjóri lífeyrissjóðsins, að þeim væri að sjálfsögðu þvert um geð að grípa til þessara aðgerða. Þær væru hins vegar af nauðsyn þar sem viðvarandi atvinnuleysi undanfarin ár og stóraukin örorka hefðu lagst þungt á sjóðinn.

Friðjón bætti því við að allflestir lífeyrissjóðir hefðu lækkað réttindin á síðustu 2 árum, en Lífeyrissjóður Suðurlands væri nú einn af þeim síðustu til þess.
„Við fórum að vinna eftir nýjum reglum við útreikninga á skuldbindingum sjóðsins um áramót og þar kom í ljós mikil aukning í örorku sem felur í sér umtalsverða aukningu á kostnaði fyrir almennu lífeyrissjóðina. Suðurnesin voru sérlega slæm í þessu tilliti auk þess sem lengri lífaldur þjóðarinnar veldur líka kostnaðarauka."

Aðspurður hvort komið gæti til hækkunar síðar ef atvinnuleysi helst í lágmarki, líkt og raunin hefur verið undanfarna mánuði, sagði Friðjón svo vera. „Ef atvinnuleysi eykst ekki aftur og örorka minnkar munum við geta hækkað réttindin aftur líkt og við gerðum í árslok 2000. Það er hins vegar ekki hægt að segja til um hvenær það verður því það eru margir þættir sem koma þar að. Við vonumst hins vegar til þess að staðan verði þannig innan fárra ára."

Friðjón neitar alfarið að þessar aðgerðir tengist fjárfestingum sjóðsins, en þrátt fyrir að þær gangi misvel ár frá ári sé það ekki ástæða til hækkana til langs tíma litið.
„Við höfum ekki gert nein mistök að því leyti og höfum aldrei fengið aðfinnslur frá fjármálaeftirliti eða öðrum eftirlitsstofnunum. Ef þessi nýja viðmiðun hefði ekki komið til hefðum við sennilega ekki þurft að grípa til þessara ráða."

Friðjón bætir því við að allir almennir lífeyrissjóðir eigi í vandræðum vegna aukinna skuldbindinga, annað en hægt er að segja um lífeyrissjóði opinberra starfsmanna. „Þar greiða ríki og sveitarfélög hallann upp sjálf, en við erum ekki með slíka bakhjarla. Þetta er mikið réttlætismál fyrir okkur og þessa stundina eru ASÍ og Starfsgreinasambandið að reyna að fá stjórnvöld til að koma að þessu máli. Eins erum við í viðræðum við aðra lífeyrissjóði með samruna í huga til að styrkja sjóðina svo að síður þurfi að grípa til lækkunaraðgerða."

Nokkur fjöldi sjóðsfélaga hefur komið ábendingum til Víkurfrétta varðandi þetta mál og nokkrir hafa velt því fyrir sér hvort ekki hefði verið unnt að dreifa lækkuninni á lengri tíma eða gefa meiri fyrirvara.
Friðjón segist viss um að það fyrirkomulag sem valið var sé það heppilegasta í stöðunni. „Þetta er ákvörðun stjórnarinnar og hún fer eftir tillögum tryggingastærðfræðings sjóðsins sem taldi þetta hagkvæmast fyrir sjóðinn."

Því er ekki að neita að slíkar aðgerðir snerta marga illa og segir Friðjón að þetta sé það versta sem geti komið uppá. „Það er auðvitað ömurlegt að þurfa að standa í forsvari fyrir slíku. Þetta er bæði leiðinlegt og dapurt, en vonandi lagast þessi mál til frambúðar sem fyrst."
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024