Læða kom með kettlinga til Sigvalda
– Dýrin rata í hendur „dýralöggunnar“
Það er ekki ein báran stök hjá Sigvalda Arnari Lárussyni lögreglumanni sem er orðinn þekktur sem dýralöggan í Reykjanesbæ. Þegar hann kom heim af vaktinni í gærkvöldi hafði læða gotið þremur kettlingum við sorptunnu heimilisins. Tveir þeirra voru á lífi en einn dauður.
Hjálparbeiðni var send út fyrir kettlingana á fésbókarsíðu lögreglunnar í gærkvöldi og þar kom jafnframt fram að búið væri að setja upp búr til að reyna að fanga mömmuna til að koma kettlingunum á spena.
„Það er mjög bagalegt þegar að dýrin eru farin að elta mann heim,“ segir Sigvaldi Arnar á fésbókarsíðu sinni í gær þar sem hann óskar jafnframt eftir hjálp varðandi nýfæddu kettlingana. Þeir eru nú hjá dýrahirði bæjarins og fá þar umönnun þar til móðirin verður fönguð í búr.
Sigvaldi hefur verið nokkuð í fréttum síðustu vikur vegna dýra sem ratað hafa í fang hans. Hann tók þátt í kattabjörgun úr brennandi íbúð á Ásbrú, aðstoðaði hvutta eftir harðan árekstur í Njarðvík og kom uglu til bjargar í Grófinni í Keflavík. Dýrin vita núna hvert á að leita fyrst læðan splæsti goti á Sigvalda í gær.
Myndin er af kettlingunum sem lifðu.
Frá kattabjörguninni á Ásbrú.
Sigvaldi kemur hvutta til hjálpar eftir árekstur í Njarðvík á dögunum.