Kynntu flugvallarframkvæmdir fyrir sveitarstjórnarfólki
Forsvarsmenn ISAVIA buðu í vikunni framkvæmdastjórum sveitarfélaga á Suðurnesjum sem eru á áhrifasvæði flugvallarins í heimsókn þar sem starfsemin og ekki síst framkvæmdir við endurnýjun flugbrauta voru kynntar. Í sumar hefur staðið yfir endurnýjun á norður-suður flugbrautinni, sem hefur af þeim sökum verðið nánast lokuð. Af þeim sökum hefur öll flugumferðin verið um austur-vesturbrautina, en aðflugs- og flugtakslína þeirrar brautar liggur beint yfir Njarðvík og Voga.
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, segir frá fundinum í vikulegu fréttabréfi sínu en íbúar Sveitarfélagsins Voga hafa undanfarnar vikur og mánuði orðið varir við hina miklu flugumferð sem fer um Keflavíkurflugvöll, jafnt á degi sem nóttu.
„Ferðamönnum sem sækja landið heim hefur fjölgað jafnt og þétt undanfarin ár, og sér ekki enn fyrir endann á þeirri þróun. Sú þróun hefur í för með sér meiri flugumferð eins og gefur að skilja,“ segir Ásgeir.
Lokun á norður-suður flugbrautinni í sumar skýrir hveru mikið íbúar í Vogum hafa orðið varir við flugumferðina. Næsta sumar veður austur-vestur flugbrautin endurnýjuð, og verður sú braut því lokuð á meðan framkvæmdum stendur.
Íbúar í Njarðvík og Vogum verða því lítið varir við flugumferðina næsta sumar en hins vegar verður aðflugslínan yfir Garðsjó og Leiruna og því von á að fólk verði meira vart við flugið þar, sem og í efstu byggðum Keflavíkur.
Ný brautarljós eru m.a. á miðlínu akbrauta en ekki bara á hliðarlínu eins og áður.