Kvikusöfnun heldur áfram en dregur úr hraða á landrisi
GPS-mælingar á Svartsengissvæðinu sýna vísbendingar um að undanfarið hafi smám saman dregið úr hraða á landrisi. Líkanreikningar, sem byggðir eru á GPS-gögnunum, sýna einnig vísbendingar um að örlítið dragi úr kvikuinnflæði undir Svartsengi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofu Íslands.
Færslur á GPS stöðinni SENG við Svartsengi síðan 11. nóvember 2023 í norður, austur og lóðrétt (efst, miðja, neðst). Neðsti ferillinn sýnir landris í millimetrum, og mælingin í gær (9. október) er sýnd með grænum punkti. Rauðu línurnar eru tímasetningar á upphafi síðustu sex eldgosa (18. desember 2023, 14. janúar, 8. febrúar, 16. mars, 29. maí og 22. ágúst 2024). Bláu línurnar tákna tímasetningar kvikuhlaupa sem hafa orðið án þess að hafi komið til eldgoss (10. nóvember 2023 og 2. mars 2024).
Að svo stöddu eru þetta litlar breytingar og áður hafa sambærilegar breytingar orðið á hraða kvikusöfnunarinnar nokkrum vikum fyrir síðustu gos. Náið verður fylgst með mælingunum næstu daga og vikur sem hjálpa til við túlkun og að spá fyrir um mögulega þróun atburðanna.
Á þessum tímapunkti er ekkert í gögnum Veðurstofunnar sem bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi komi til með að hætta á næstunni.
Frá síðustu goslokum (5. september) hefur verið lítil jarðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni en þar hafa einungis um 40 smáskjálftar mælst. Á sama tíma hefur verið jöfn virkni í vestanverðu Fagradalsfjalli, þar sem hátt í 400 smáskjálftar hafa mælst (