Kvikusöfnun heldur áfram - nýr sigdalur hefur myndast
Kvikusöfnun heldur áfram undir Svartsengi með svipuðum hraða og fyrir tvö síðustu gos. Þetta er niðurstaða samráðsfundar vísindamanna sem haldinn var í morgun. Þá hefur nýr sigdalur myndast austan við sigdalinn sem myndaðist 10. nóvember. Sigdalurinn er um 800-1000 m breiður. Til samanburðar var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 m. Þetta fram í gögnum sem safnað var og unnin á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Landmælinga Íslands.
Mesta sig í nýja dalnum er um 30 cm, en vert er að geta að svæðið er enn að síga og dalurinn að víkka. Til samanburðar þá var sigdalurinn sem myndaðist 10. nóvember í gegnum Grindavík um 2 km breiður. Sigið innan hans var mest um 1,3 m.
Innan þessa nýja sigdals var áður búið að kortleggja sprungur sem höfðu myndast og voru sýnilegar á yfirborði. Þær sprungur hafa stækkað og nýjar myndast. Hætta í tengslum við sprungur og að jarðvegur hrynji ofan í þær hefur því aukist í austurhluta Grindavíkur frá því sem áður var, segir í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.
„Líkt og í gosinu 18. desember hljóp kvika frá söfnunarstaðnum undir Svartsengi, til austurs og myndaði kvikugang sem teygir sig frá Stóra Skógsfelli og suður undir Grindavík. Þetta staðfesta reiknilíkön. Þau sýna jafnframt að líklega var upptakastaður kvikunnar aðeins vestar nú en áður og því voru GPS mælingar að sumu leiti frábrugðnar því sem sást 18. desember.
Þegar kvikugangur myndast nálægt yfirborði, tognar á jarðskorpunni og land sígur yfir miðju kvikugangsins. Ennfremur þrýstist jarðskorpan upp sitt hvoru megin við hann. Reiknilíkön sem farið var yfir á samráðsfundinum sýna að GPS mælirinn í Svartsengi er staðsettur á þeim stað í jaðri kvikugangsins þar sem land rís rétt á meðan gangurinn er að myndast. Nú tveimur sólarhringum eftir að kvikugangurinn myndaðist ætti mælirinn í Svartsengi að byrja að sýna landsig ef kvikusöfnun væri hætt. Svo er ekki og því er ljóst að kvika er safnast fyrir líkt og áður. Kvikugangurinn sem myndaðist í gosinu sem hófst á sunnudaginn liggur heldur austar en kvikugangurinn sem fór undir Grindavík 10. nóvember.“