Kvikuhreyfingar ennþá einskorðaðar við svæðið milli Keilis og Fagradalsfjalls
Fyrsta skoðun á nýjum gervihnattamyndum og túlkun á GPS gögnum bendir til þess að kvikuhreyfingar séu áfram bundnar við umbrotasvæðið milli Fagradalsfjalls og Keilis. Úrvinnsla úr þessum myndum sem bárust í morgun bendir því til þess að kvikuhreyfingar séu ennþá einskorðaðar við það svæði. Þessi gögn sýna einnig að skjálftavirknin, sem mælst hefur síðasta sólarhringinn vestur og austur af því svæði, tengist spennubreytingum vegna kvikugangsins sem er að myndast á umbrotasvæðinu, segir á vef Veðurstofu Íslands.
Vísindaráð mun funda á morgun, mánudag, til að fara nánar yfir nýjustu gögn og mælingar.