Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kvikmyndaskólinn var líflína úr hyldýpi fíknar
Fimmtudagur 1. nóvember 2018 kl. 09:13

Kvikmyndaskólinn var líflína úr hyldýpi fíknar

Njarðvíkingurinn Elfar Þór á ellefu innlagnir á Vog að baki ásamt öðrum meðferðarúrræðum. Hann byrjaði að nota áfengi um fermingaraldur og eftir það fór snjóboltinn að rúlla. Hann fór að heiman sautján ára gamall og átti ekki heimili að kalla næsta tæpa áratuginn. Hann hefur horft upp á marga vini sína taka eigið líf. Fjölskylda hans hefur borið þunga byrði sökum lífernis hans og nú burðast hann með að fyrirgefa sjálfum sér. 
 
Elfar sem hefur fundið köllun sína í kvikmyndagerð. Hann var alltaf heillaður af bíómyndum sem barn en grunaði aldrei að hann færi að skapa sínar eigin. „Raunveruleiki minn í dag var fjarstæðukenndur draumur þegar ég var sextán ára gamall. Þegar maður talaði um að gera kvikmyndir á þeim tíma var manni sagt að hafa raunhæfa drauma.“
 
Um þrettán ára aldur var Elfar byrjaður að drekka reglulega og neyta vímuefna fimmtán ára gamall. „Ég held að þarna hafi ég haft lítið sjálfsmat. Þegar maður byrjar að drekka þá er maður allt í einu þessi fyndni og skemmtilegi, þegar þú varst kannski í raun kvíðinn og alls ekki viss með sjálfan þig á meðan þú varst edrú.“ Elfar fann griðarstað í Kvikmyndaskóla Íslands. „Skólinn varð líflína mín. Þetta var staður þar sem ég var ekki dæmdur fyrir fortíð mína. Þetta var staður þar sem mér var fagnað fyrir að nýta söguna og sækja þangað innblástur til þess að skapa. Þetta er ekki fallegt líf. Þér líður aldrei vel þar sem þú ert í stöðugu ástandi að reyna að deyfa þig. Loksins að geta nýtt allan þann sársauka til þess að skapa.“
 
Fimmtán ára gamall var Elfar búinn að gefa skólagöngu mína upp á bátinn og farinn af vinna til þess að fjármagna eigin neyslu. „Stuttu eftir það yfirgaf ég heimili foreldra minna. Ég var sautján ára þegar ég fór að heiman vegna þess að þau voru að skipta sér af mér, og ég fór líka í mína fyrstu meðferð það sama ár. Þetta vindur upp á sig svo fljótt. Maður segir við sjálfan sig: „Ég ætla bara að reykja hass,“ svo ertu allt í einu farinn að nota amfetamín og áður en þú veist af er þetta búið að yfirtaka líf þitt. Þetta er kannski gaman og spennandi til að byrja með en síðan ertu farinn að ljúga að sjálfum þér að þetta sé ennþá gaman, en það er ekkert annað en sjálfsblekking þar sem þú ert orðinn háður efnunum – andlega og líkamlega.“
 
Elfar Þór er í Suðurnesjamagasíni Víkurfrétta á Hringbraut í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:30.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024