Kvíði barna og unglinga
Bjóða nemendum og forráðamönnum á fyrirlestur um kvíða
Skólaþjónusta Reykjanesbæjar býður foreldrum/forráðamönnum nemenda í 10. bekkjum grunnskóla í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði á fræðsluerindi um geðheilbrigði barna og ungmenna. Fræðsluerindið verður haldið í húsnæði Íþróttaakademíunnar fimmtudaginn 4. maí klukkan 17:00. Umræðuefnið að þessu sinni er kvíði barna og unglinga. Vikuna 1. - 5. maí fá nemendur í 10. bekk heimsókn frá sálfræðingum skólaþjónustunnar í kennslustund. Í þessum heimsóknum munu sálfræðingar skólaþjónustunnar meðal annars fræða nemendur um kvíðaviðbragðið, tilgang kvíðaeinkenna, hvenær kvíði getur verið hjálplegur og hvenær hann verður óhjálplegur. Einnig er fjallað um mögulegar leiðir til þess að takast á við kvíða með árangursríkum hætti. Stuðningur foreldra/forráðamanna skiptir miklu máli þegar börn og unglingar læra að takast á við kvíða/ótta sinn með árangursríkum hætti. Því er sambærilegt fræðsluerindi haldið fyrir foreldra/forráðamenn í sömu vikunni og nemendur fá heimsókn frá sálfræðingum skólaþjónustunnar, með það að leiðarljósi að skapa góðan samræðugrundvöll barns og foreldris um andlega heilsu. Starfsmenn fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar hvetja foreldra til þess að nýta tækifærið og hlusta á áhugavert og fræðandi erindi.