Kvennakórinn og Leikfélagið fengu Súluna
Kvennakór Suðurnesja og Leikfélag Keflavíkur fengu menningarverðlaun Reykjanesbæjar 2008, Súluna. Árni Sigfússon, bæjarstjóri og Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar afhentu formönnum félaganna verðlaunin í bíósal Duus húsa síðdegis í dag.
Félögin fögnuðu bæði fjörtíu ára afmæli nýlega, Kvennakórinn á þessu ári og Leikfélag Keflavíkur í fyrra. Kvennakórinn fór í söngferð til Ítalíu og kom heim með tvenn gullverðlaun úr kóramóti og LK hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu með góðar leiksýningar, þar á meðal eina á fjölunum núna, Sex í sveit.
Kvennakórinn tók þrjú lög á afhendingunni í kvöld við mikla hrifningu gesta. Fjölmenni var í bíósalnum og fékk súkkulaðidrykk og marsipantertu eftir athöfnina.
Verðlaunahafar Súlunnar 2008 með bæjarstjóra, forseta bæjarstjórnar og menningarfulltrúa.
Kvennakórsdömurnar voru ánægðar með viðurkenninguna og slógu á létta strengi.
.