Kvartar undan óþef frá fiskvinnslu og köttum
Hannes Tryggvason, íbúi við Lindartún í Garði hefur ritaðbréf til Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja og bæjarfulltrúa Sveitarfélagsins Garðs vegna ólyktar frá fiskvinnslufyrirtæki við Iðngarða í Garði og eins vegna lausagöngu katta. Bréfið hefur Hannes einnig birt á Facebook og er bréfið hér að neðan:
„Komið sæl.
Ég er íbúi í Lindartúni í Garði og er nú mín mikla þolinmæði á þrotum.
Þannig er mál með vexti að eftir að ákveðið fiskfyrirtæki sem staðsett er í Iðngörðum breytti um vinnsluaðferð er gjörsamlega ólíft hér sökum lyktar suma daga. Það er með öllu ólíðandi að ekki sé hægt að opna glugga á heimili sínu og setja út þvott. Svona lykt hefur verið hér síðan ég flutti haustið 2006 og gat ég svo sem sætt mig við það vegna þess að ég vissi af þessu þegar ég kaupi íbúðina mína. En eftir að þetta umrædda fyrirtæki byrjaði þessa verkun er ég ekki sáttur því þetta er jú mjög nálægt íbúðahverfi og er greinilega ekki með eins góðan hreinsibúnað og á að vera.
Ég er ekki búinn. Kettir eru einnig að gera mig brjálaðan hérna. Ef lyktin er ekki þá get ég heldur ekki opnað glugga því ekki vil ég þessi dýr inn. Kattahlandsfýlan fyrir utan útidyrnar og undir pallinum hjá mér er með þvílíkum ólíkindum suma sólardaga að halda þarf fyrir vitin. Einnig er skítur á lóðinni eftir þá (og já, kettir gera einnig þarfir sínar eins og hundar, það er bara ekki rétt að þeir grafi niður sinn saur). Einnig eru þessi dýr að fara upp á bílana og rispa þá. Kettir mega alveg vera hér í bæjarfélaginu fyrir mér, en þeir geta alveg verið í búri eins og kanínur eða í bandi eins og hundar. Ef afsökunin á að vera að það sé ekki í eðli katta að vera í bandi eða búri þá fæðast hundar ekki í bandi eða kanínur í búri.
Ég skora á bæði bæjaryfirvöld í Garði og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja að gera eitthvað í þessu. Ég er líka bæjarbúi eins og kattareigendur.
Ég veit um fleiri sem eru hreinlega að gefast upp á þessu hvorutveggja. Ekki er skemmtilegt að fá gesti í bæjarfélagið og Garðbrautin lyktar eins og úldinn fiskhaugur.
Ekki veit ég hvort mark verði tekið á þessum pósti frá mér en það vona ég svo sannarlega, ekki vill maður fara í undirskriftarsöfnum. Það hlýtur að vera hægt að finna einhverja lausn.
Með von um góðar undirtektir,
kveðja Hannes Tryggvason íbúi Lindartúni Garði.“