Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

KS og Samkaup gáfu eina milljón til Krabbameinsfélagsins
Þriðjudagur 1. apríl 2008 kl. 09:23

KS og Samkaup gáfu eina milljón til Krabbameinsfélagsins

Kaupfélag Suðurnesja og Samkaup afhentu í gær Krabbameinsfélagi Suðurnesja eina milljón króna að gjöf til styrktar fjármögnun krabbameinsleitartækja.
Krabbameinsfélagið hóf fyrir nokkru fjármögnun að berkju-, maga – og ristilspeglunartæki fyrir Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og var leitað til fyrirtækja og félagasamtaka eftir stuðningi við verkefnið en kostnaður við það er um 10 milljónir króna.

Tækið sem um ræðir hefur verið uppsett á HSS og er tilbúið til notkunar. Það er mjög fjölþætt og nýtist bæði við forvarnir og greiningu krabbameins sem og við meðhöndlun annarra kvilla í meltingar og öndunarvegi. Með tækinu er sú þjónusta, sem hingað til hefur þurft að sækja til Reykjavíkur, þar með komin í heimabyggð.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Árlega greinast yfir 90 Íslendingar með ristilkrabbamein. Meinið er hægt að fyrirbyggja sé það greint í tíma og því er skimun mikilvægasta viðfangsefnið í baráttunni gegn krabbameini.

Að sögn forsvarsmanna Krabbameinsfélagsins hafa ýmis félagasamtök og fyrirtæki komið rausnarlega að fjármögnuninni, t.d. gaf kvenfélagið í Njarðvík eina og hálfa milljón króna og stuðningur Samkaupa færir félagið enn nær markmiðinu þó aðeins vanti upp á ennþá.

Afhending gjafarinnar fór fram í þjónustumiðstöð Krabbameinsfélagsins að Smiðjuvöllum 8 en miðstöðin veitir bæði ráðgjöf og stuðning þeim sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendum. Miðstöðin er rekin í nánu samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands, m.a. með aðgangi að öflugri ráðgjafaþjónustu þess.

Söfnunarreikningur Krabbameinsfélags Suðurnesja er 1109-05-404790, kt. 431095-2469.


Mynd/elg: Frá afhendingu fjárstyrksins í gær, talið frá v.: Sturla Eðvarðsson og Magnús Haraldsson fulltrúar Kaupfélagsins/Samkaupa, Ómar Steindórsson, formaður Krabbameinsfélags Suðurnesja, Ómar Valdimarsson, Kaupfélagi Suðurnesja, Anna María Einarsdóttir, starfsmaður Krabbameinsfélagsins, og Guðjóns Stefánsson, Kaupfélagi Suðurnesja.