Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Krýsuvíkurkirkja endurbyggð
Miðvikudagur 23. febrúar 2011 kl. 09:57

Krýsuvíkurkirkja endurbyggð

Nemendur og kennarar byggingadeildar Iðnskólans í Hafnarfirði vinna nú að endurbyggingu Krýsuvíkurkirkju og er stefnt að því að flytja hana tilbúna á sinn stað á næsta ári. „Vonandi í maí eða júní," segir Hrafnkell Marinósson, deildarstjóri og byggingastjóri framkvæmdanna með meiru í viðtali við Morgunblaðið í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024


Hrafnkell segir að bruni kirkjunnar hafi snert marga enda hafi hún verið hluti af tilveru svæðisins og hann hafi strax séð endurbyggingu hennar fyrir sér sem gott verkefni fyrir nemendur í byggingadeild Iðnskólans. „Bæði til þess að viðhalda gömlu og góðu handverki og eins til þess að bæta atvinnuástand ungs fólks." Hann segir mikilvægt að efla íslenskt handverk og viðhald á gömlum byggingum og komist ungt fólk ekki á námssamning verði skólar og yfirvöld að bregðast við. Það hafi alltaf verið erfitt en sé nú útilokað og það gangi ekki að stöðva ungt fólk, sem vilji læra þetta fag, vegna þess að það komist ekki í 18 mánaða starfsþjálfun. Skólinn hafi því brugðist við stöðunni og sent erindi til menntamálaráðuneytisins um hvort mögulegt væri að vera með svona verkefni og það kæmi til styttingar á starfsþjálfun. Allir hafi skilning á málinu en svar hafi ekki borist.


Um 12 til 15 nemendur koma að endursmíðinni. Verkefnið fór af stað strax eftir brunann í fyrra, þegar byrjað var að teikna innanstokksmuni kirkjunnar. Þjóðminjasafnið átti teikningar af kirkjunni frá 2002 og þegar búið var að vinna grindarteikningar og afla efnis, m.a. úr gömlu húsunum á horni Lækjargötu og Austurstrætis í Reykjavík, hófust framkvæmdir í skólanum í haust sem leið. „Þetta er mjög spennandi," segir Hrafnkell. „Verkefnið er eintóm hamingja."


Vinafélag

Þeir sem vilja gerast stofnfélagar í Vinafélagi Krýsuvíkurkirkju geta gert það með því að leggja 1.500 kr. stofnframlag inn á söfnunarreikning sem stofnaður hefur verið í Íslandsbanka. Númer hans er 545-14-402800, kennitala 620110-1160. Þeir sem leggja inn stofnframlag fyrir 27. febrúar nk. teljast stofnfélagar Vinafélagsins.