Kröftugur vöxtur á Keflavíkurflugvelli
– varanlegum störfum fjölgi um nokkur hundruð, þegar á þessu ári.
Í janúar var fjöldi ferðamanna sem fór frá landinu 77.500 og hafði fjölgað um 14.800 frá janúar 2015, eða um 23,6%. Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum, fjallar um málið í morgun í vikulegu fréttabréfi sínu til Vogamanna og vitnar til upplýsinga frá fulltrúum stærstu vinnuveitenda á flugvallarsvæðinu, en fyrirséð er mikil fjölgun starfa á svæðinu.
Gera má ráð fyrir að varanlegum störfum fjölgi um nokkur hundruð, þegar á þessu ári. Að sögn þeirra gengur vel að manna sumarstörfin, en vandinn snýr að mönnun nýrra, varanlegra starfa.
„Að mörgu er að hyggja í því efni, m.a. búsetuúrræði, samgöngur, opnunartímar leikskóla o.m.fl. ISAVIA gaf út farþegaspá fyrir árið 2016 í lok nóvember s.l., þar sem gert var ráð fyrir 28% fjölgun ferðamanna til landsins í ár m.v. síðasta ár.
Að mati kunnugra er líklegt að þessi spá sé þegar að verða úrelt og að þess sé ekki langt að bíða að ný, endurskoðuð spá verði gefin út. Öll þessi mikla uppbygging og fjölgun ferðamanna hefur mikil áhrif í öllum sveitarfélögunum á Suðurnesjum, með tilheyrandi uppbyggingu þjónustu og innviða,“ segir í pistli Ásgeirs bæjarstjóra í Vogum.