Kröftugur jarðskjálfti í Grindavík í kvöld
Kröftugur jarðskjálfti fannst í Grindavík kl. 22:14 og urðu bæjarbúar vel varir við skjálftann. Hann mældist 3,7 stig á Richter og átti upptök 2,6 kílómetra ANA af Grindavík, samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum á vef Veðurstofu Íslands.
Skjálftinn var nokkuð langur og stóð yfir í nokkrar sekúndur en kom ekki sem eitt högg. Fólki í Grindavík er nokkuð brugðið ef marka má færslur á samskiptamiðlinum Facebook.
Í gær fundust tveir skjálftar nokkuð greinilega í Grindavík en þessi sem varð í kvöld var mun snarpari.
Ekki er líklegt að tjón hafi orðið og ekkert hefur fallið úr hillum.