Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kríuungarnir keyrðir í klessu
Það fór ekki vel fyrir þessum kríuunga á þjóðveginum við Norðurkot í vikunni. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson
Laugardagur 14. júlí 2012 kl. 14:09

Kríuungarnir keyrðir í klessu

Kríuvarpið við Norðurkot í Sandgerði er að takast með miklum glæsibrag þetta sumarið. Aldrei áður hefur sést eins mikið af  kríu á svæðinu og mikið af ungum eru nú að taka fyrstu skrefin út í lífið. Þessi skref geta hins vegar verið banvæn eins og Sigríður H Sigurðardóttir, húsfreyja í Norðurkoti bendir á. Ungarnir sækja upp á heitt malbikið og þar verða þeir óvarkárum ökumönnum að bráð.

Í vikunni fóru fyrstu ungarnir á stjá og út á þjóðveginn sem liggur á milli Sandgerðis og Stafness. Ökumenn sem fara um svæðið huga margir hverjir ekki að ungunum og hreinlega keyra þá í klessu. Margir ungar hlutu þessi örlög strax fyrsta sólarhringinn og af gamalli reynslu þá eiga margir eftir að enda lífið með þessum hætti á næstu dögum.

Sigríður segir að kríuvarpið sé að heppnast núna í fyrsta skipti í fjögur ár. Engir ungar hafi komist á legg síðustu ár þar sem fæðubrestur hafi verið í hafinu og ekkert hentugt síli fyrir ungana.

„Það er leiðinlegt að horfa upp á ungana keyrða svona niður loksins þegar varpið er að takast,“ sagði Sigríður sem hvetur ökumenn til að taka lífinu rólega á þessum 700 metra kafla þar sem ungarnir sækja upp á veginn. Það þurfi að sýna ungunum tillitsemi og keyra rólega um svæðið og njóta þess að fylgjast með krúttlegum ungunum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bárður Sindri bjargaði þessum af veginum og kom honum út í móa, þar sem unginn á að vera öruggari.