Kristjáni meinað að tjá sig um svifryksmengun í Reykjaneshöll
Þjálfari knattspyrnuliðs Keflavíkur leitaði sér læknisaðstoðar eftir að hafa fengið sýkingu í augu vegna svifryks í Reykjaneshöll. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hyggjast leysa svifryksvandann með ryksugu, en þjálfaranum var bannað að veita Stöð 2 viðtal vegna málsins. Greint var frá þessu á Stöð 2 og Vísi.is nú í kvöld.
Í íþróttafréttum stöðvar 2 í gær var greint frá því að niðurstöður úr mælingum Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja hafa leitt í ljós að svifryksmengun er langt yfir hættumörkum í Reykjaneshöllinni.
Höllin var vígð árið 2000 og var gert ráð fyrir því í upphafi að endingartími gervigrassins í höllinni væri 10 ár. Þeir sem fréttastofa hefur rætt við segja það alveg á hreinu að endingatími gervigrassins sé löngu liðinn og eru dæmi um að sumir knattspyrnumenn geti ekki lengur æft í höllinni.
Kristján Guðmundsson þjálfari úrvalsdeildarliðs Keflavíkur sagði í viðtali við íþróttaþáttinn Mín Skoðun á X-inu á dögunum að hann hafi fengið sýkingu í augun og þurft að leita til læknis vegna svifryksmengunarinnar.
Kristján féllst á að veita fréttastofu stöðvar 2 viðtal vegna málsins í dag en þegar fréttamaður bankaði upp á sagði Kristján að sér hefði verið meinað að tjá sig frekar um málið. Kristján vildi ekki upplýsa um hver hefði bannað honum að tala en Rúnar Arnarson formaður knattspyrnudeildar Keflavíkur sagðist í samtali við fréttastofu ekki hafa tekið fram fyrir hendurnar á Kristjáni.
Víkurfréttir greindu frá því í morgun að Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hygðust leysa svifryksvandann með því að fjárfesta í þar til gerðri ryksugu, samkvæmt því sem fram kom á bæjarstjórnarfundi í gær. Ryksugubúnaðurinn kostar allt að þrjár milljónir króna en Nýtt gervigras kostar hátt í 30 milljónir.
Fresturinn sem Heilbrigðisyfirvöld höfðu gefið bæjaryfirvöldum til að skila úrbótaáætlun rann út um síðustu mánaðarmót en var framlengdur fram að næsta fundi heilbrigðisnefndar sem verður eftir viku.