Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kristján verður fomaður Starfsgreinasambands Íslands
Þriðjudagur 24. ágúst 2004 kl. 11:09

Kristján verður fomaður Starfsgreinasambands Íslands

Kristján Gunnarsson, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur, mun að öllum líkindum taka við formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands í haust þegar Halldór Björnsson lætur af störfum. Kristján, sem er varaformaður sambandsins, sagði í samtali við Víkurfréttir í dag að hann gengi glaður til þessa starfs og muni áfram sinna sínum störfum fyrir Verkalýðsfélagið.

„Ég mun stýra Starfsgreinasambandinu héðan úr Reykjanesbæ enda verð ég með góðan framkvæmdastjóra, Skúla Thoroddsen, sem mun sjá um daglegan rekstur. Aðdragandinn að þessu hefur verið nokkuð langur, eða frá því að ég tók við varaformannsembættinu og ég veit ekki betur en að það verði góður friður og víðtæk sátt um skipunina.“

Starfsgreinasambandið er stærsta landssambandið innan ASÍ og telur um 40.000 félagsmenn samkvæmt upplýsingum á heimasíðu þess.

Talsvert mæðir á Kristjáni og forystu Verkalýðsfélagsins þessa dagana sem endranær og hafa borist fregnir af því að uppsagna sé að vænta hjá Varnarliðinu á næstunni. Heimildamenn Víkurfrétta segja þó að ekki sé um mikinn fjölda að ræða, en Kristján gat ekki tjáð sig um málið þar sem samráðsferli er í gangi.

Hann gat þess þó að samdráttur væri yfirvofandi þar sem skipulagsbreytingar á farþega- og fraktflugi varnaliðsins væru væntanlegar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024