Kristján segir af sér
Kristján G. Gunnarsson hefur sagt af sér formennsku í Starfsgreinasambandinu og dregið sig út úr stjórnarstörfum fyrir Alþýðusamband Íslands og Festu lífeyrissjóð. Þá ætlar hann að ræða stöðu sína hjá Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis við sína félaga í því félagi.
Kristján hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem segir að ábyrgð hans sem stjórnarmanns í Sparisjóðnum í Keflavík í aðdraganda falls sjóðsins hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Segir Kristján að sjónarmið hans í því efni hafi ekki komist nægilega vel til skila og trúverðugleiki hans beðið hnekki.
„Ég bregst nú við með því að reyna að lágmarka þau áhrif sem þetta mál kann að hafa gagnvart þeim samtökum sem ég hef unnið fyrir lengst af á starfsævi minni. Ég hef þess vegna ákveðið að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga mig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og Festu - lífeyrissjóð. Um stöðu mína í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis mun ég ræða við félaga mína í því félagi,“ segir í yfirlýsingu Kristjáns.
Yfirlýsing Kristjáns
Yfirlýsing frá Kristjáni G. Gunnarssyni
Ábyrgð mín sem stjórnarmanns í Sparisjóði í Keflavíkur í aðdraganda falls hans hefur verið til umfjöllunar í fjölmiðlum. Því miður hafa sjónarmið mín í því efni ekki komist nægilega vel til skila. Dæmi eru um rangfærslur, bein ósannindi og ummæli sem slitin eru úr samhengi í þessum fréttaflutningi. Ógerlegt er að elta ólar við það allt. En í þessu sambandi við ég leggja áherslu á fjögur meginatriði af minni hálfu til að skýra út málin:
Í fyrsta lagi: Á stjórnartíma mínum frá 2005 til 2008 bentu öll gögn, þ.m.t löglega endurskoðaðir ársreikningar, milliuppgjör og lögbundnar skoðanir eftirlitsaðila til þess að rekstur Sparisjóðsins væri í samræmi við lög og reglur og eðlilega viðskiptahætti.
Í öðru lagi: Það kom í ljós við úttekt Fjármálaeftirlitsins á sjóðnum, samkvæmt skýrslu hans í júlí 2008 vegna ársins 2007, að útlánareglum sjóðsins var verulega ábótavant og útlán sparisjóðsstjóra voru í mörgum tilvikum afar óeðlileg. Stjórnin brást þá strax við skýrslu Fjármálaeftirlitsins, herti reglur og stöðvaði heimildir sparisjóðsstjóra. Sérstök lánanefnd var sett á með formlegum hætti og áhættu og eignastýring sett á laggirnar.
Í þriðja lagi: Eftir efnahagshrunið 2008 komst Sparisjóðurinn í Keflavík í verulegan vanda. Ég tók við stjórnarformennsku í Sparisjóðnum eftir aðalfund vorið 2009. Það var ekki eftirsóknarvert hlutverk. En ég vildi sem stjórnarmaður axla ábyrgð á þeirri stöðu sem uppi var. Öll stjórnarstörf voru frá þessum tíma unnin undir eftirliti tilsjónarmanns frá FME. Starfslok voru gerð við sparisjóðsstjóra í samræmi við ákvörðun stjórnar. Markmið mitt var að reyna að vinna Sparisjóðinn út úr þeim vanda sem hann var kominn í af heiðarleika og eindrægni. Sú vinna skilaði ekki þeim árangri sem að var stefnt.
Í fjórða lagi: Einungis opinber rannsókn mun skila raunverulegri niðurstöðu um ábyrgð stjórnarmanna og annarra á falli Sparisjóðsins. Þeirri niðurstöðu kvíði ég ekki.
Í þessari umræðu hefur trúverðugleiki minn beðið hnekki. Ég bregst nú við með því að reyna að lágmarka þau áhrif sem þetta mál kann að hafa gagnvart þeim samtökum sem ég hef unnið fyrir lengst af á starfsævi minni. Ég hef þess vegna ákveðið að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga mig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og Festu - lífeyrissjóði.
Um stöðu mína í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis mun ég ræða við félaga mína í því félagi."
Í þessari umræðu hefur trúverðugleiki minn beðið hnekki. Ég bregst nú við með því að reyna að lágmarka þau áhrif sem þetta mál kann að hafa gagnvart þeim samtökum sem ég hef unnið fyrir lengst af á starfsævi minni. Ég hef þess vegna ákveðið að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga mig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og Festu - lífeyrissjóði.
Um stöðu mína í Verkalýðs- og sjómannafélagi Keflavíkur og nágrennis mun ég ræða við félaga mína í því félagi.
Keflavík 4. febrúar 2011.
Kristján G. Gunnarsson