Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kristján nýtur fyllsta trausts hjá VSFK
Þriðjudagur 8. febrúar 2011 kl. 11:42

Kristján nýtur fyllsta trausts hjá VSFK

Bæði stjórn og varastjórn Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis lýstu fyllsta trausti á Kristján G. Gunnarssonar formann félagsins á fundi sínum í gær. Stjórnin harmar jafnframt þá ákvörðun Kristjáns að draga sig út úr störfum fyrir Starfsgreinasambandið, ASÍ og Festu. Kristján var eindregið hvattur til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess „að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum í þágu þess, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir,“ segir enn fremur í einróma samþykkt fundarins frá í gær, sem hér fer á eftir. Frá þessu er greint á vef Starfsgreinasambandsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samþykkt stjórnar og varastjórnar VSFK 7. febrúar 2011

„Í yfirlýsingu frá Kristjáni G. Gunnarssyni formanni VSFK frá 4. febrúar s.l telur hann að í umræðunni um fall Sparisjóðsins í Keflavík hafi trúverðugleiki hans sjálfs beðið hnekki. Af þeim ástæðum ákvað hann að falla frá formennsku í Starfsgreinasambandi Íslands og draga sig út úr stjórnarstörfum fyrir ASÍ og í Festu - lífeyrissjóði.

Stjórn og varastjórn VSFK harmar þessa ákvörðun Kristjáns og telur að sjónarmið hans sem fram komu í yfirlýsingunni hafi orðið undir í fjölmiðlaumræðunni. Kristján hafi engu að síður ákveðið að taka á sig meiri ábyrgð en tilefnið gaf til og að hann hafi í raun axlað ábyrgð sem öðrum bar.

Það vita þeir sem vita vilja að fall Sparisjóðsins í Keflavík er ekki runnið undan stefnumörkun Kristján G. Gunnarssonar, heldur reyndi hann í samstarfi við Fjármálaeftirlitið að forða Sparisjóðnum frá falli þegar ljóst varð hvert stefndi eftir bankahrunið árið 2008 þegar aðrir yfirgáfu stjórn sjóðsins í kjölfarið. Stjórn og varastjórn VSFK lýsir þess vegna fyllsta trausti til Kristján G. Gunnarssonar og hvetur hann eindregið til þess að halda áfram formennsku í VSFK og til þess að gegna áfram mikilvægum trúnaðarstörfum fyrir félagið, meðal annars að leiða samninganefnd félagsins í þeim erfiðu kjaraviðræðum sem nú standa yfir. Fáir eru betur til þess fallnir.“