Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kristján Gunnarsson nýr stjórnarformaður SpKef
Miðvikudagur 22. apríl 2009 kl. 22:30

Kristján Gunnarsson nýr stjórnarformaður SpKef


Kristján Gunnarsson var kjörinn formaður stjórnar Sparisjóðsins í Keflavík eftir aðalfund sjóðsins í Kirkjulundi nú síðdegis.
Auk Kristjáns voru kjörnir í stjórn þeir Garðar Ketill Vilhjálmsson sem jafnframt var kjörin varaformaður á fyrsta fundi stjórnarinnar eftir aðalfundinn. Aðrir í stjórn eru Margrét Ágústsdóttir sem er úr Keflavík eins og Kristján og Garðar, Heimir Ágústsson og Björgvin Sigurjónsson en þeir tveir síðastnefndu koma frá öðrum sparisjóðum sem sameinuðust SpKef. Í varastjórn voru kosnir Kristinn Jónasson, Guðbrandur Einarsson, Óskar Elísson og Ásdís Ýr Jakobsdóttir.
Aðalfundinum lauk á áttunda tímanum í kvöld eftir miklar umræður. „Þetta er erfiðasti aðalfundur sem ég hef setið og erfiðasta rekstrarár að baki. Ég er samt ánægður með stuðninginn sem ég og við fengum hjá stofnfjáraðilum á aðalfundinum,“ sagði Geirmundur Kristinsson, sparisjóðsstjóri sem tilkynnti að hann myndi ljúka störfum á árinu. Í ræðu Geirmundar kemur fram af hverju hann kýs að segja upp störfum en í stuttu máli sagt er ástæðan sú að hann er of hátt launaður að mati ríkisvaldsins sem vill ekki hafa hálaunaða sparisjóðsstjóra í vinnu. Meira um það í næstu grein hér á vf.is þar sem birt er orðrétt ræða Geirmundar á fundinum í kvöld. Eins og fram kom á vf.is fyrr í dag þá var Angantýr Jónasson ráðinn Sparisjóðsstjóri frá 1. júní til áramóta.

Síðar á fundinum komu spurningar frá fundarmönnum og þar var m.a. spurt um helstu stjórnendur sem keyptu stofnbréf í SpKef en fengu kúlulán í annarri bankastofnun fyrir hluta kaupverðs. Geirmundur svaraði því til að hann sæi ekkert athugavert við þau viðskipti. SpKef hefði ekki lánað þeim né tapað á þeim viðskiptum og hann vissi ekki betur en að þeir stæðu uppréttir ennþá. „Umræða um þá var alls ekki sanngjörn og átti engan veginn rétt á sér,“ sagði sparisjóðsstjóri í svari sínu sem jafnframt sagði umræðuna um fyrirtækið Suðurnesjamenn á villigötum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Meðal þeirra sem tóku til máls voru Páll Jónsson fyrrverandi Sparisjóðsstjóri en hann þakkaði þann heiður sem fundurinn sýndi Tómasi Tómassyni, fyrrverandi Sparisjóðsstjóra sem lést í mars á síðasta ári. Páll sagðist ekki vilja heyra á það minnst að Geirmundur væri að hætta og bað hann í lengstu lög ásamst gömlum stjórnendum SpKef að klára árið. Sparisjóðurinn þyrfti á þeim að halda. Páll koma víða við í ræðu sinni og var mikið niðri fyrir. Hann sagði þó að mestu skipti að Spkef stæði enn í lappirnar og ekki væri að sjá annað en að sjóðurinn myndi standa óveðrið af sér.

Mikið fjölmenni sótti fundinn eða um 300 manns. Á efstu myndinni má sjá nýkjörinn stjórnarformann, Kristján Gunnarsson með þeim Grétari Grétarssyni, starfsmanni SpKef og Garðari Garðarssyni, lögfræðingi og fundarstjóra.

Páll Jónsson flutti þrumuræðu og sagði Sparisjóðinn sterkan en bað Geirmund Sparisjóðsstjóra að hætta ekki störfum strax.

Myndir og texti frá Sparisjóðsfundinum: Páll Ketilsson.