Kristján Gunnarsson: Finnst tónninn vera mjög góður
VSFK hefur boðar til kynningarfundar á mánudaginn um nýju kjarasamningana. Atkvæðagreiðsla um þá er þegar hafin á meðal félagsmanna Flóabandalagsins en um 20 þúsund manns eru á kjörskrá. Veruleg hækkun lægstu launa vegur þyngst í kjarasamningunum, sem er til 3ja ára.
„Við vorum þarna að ná nánast öllum meginmarkmiðunum í kröfugerðinni. Við erum að sjá þarna 20 þúsund króna hækkun á tekjutryggingunni, þ.e. allra lægstu laununum sem heimilt er að greiða. Þá erum við að ná þarna í gegn ýmsum góðum málum, t.d. hvað varðar slysatryggingamálin og orlofið sem lengist um tvo daga. Þá erum við loks að ná í gegn ýmsum grundvallarmálum, t.d. hefur í áratugi verið reynt að fá í gegn vernd gegn uppsögnum, þ.e. að atvinnurekandi geti ekki sagt fólki upp án gildrar ástæðu,“ segir Kristján Gunnarsson, formaður VSFK, aðspurður um hvaða atriði honum finnist veigamest í samningagerðinni. Hann segir hækkun lægstu launa vega þyngst. „Það er verið að nota allt púðrið í að hækka lægstu launin á markaðnum og launatöflubreytingin vegur þar þyngst. Ég hygg að sú breyting komi við um 70% félagsmanna í VSFK.“
Kristján segir hljóðið almennt gott í sínu fólki með samningana „Mér finnst tónninn vera mjög góður, alveg öndvert við það sem var fyrir fjórum árum en sá samningur var samþykktur með litlum mun. Við hvetjum fólk engu að síður til að segja hug sinn í atkvæðagreiðslunni núna.“
Hér að neðan er nánari útlistun á samningnum í tilkynningu frá aðildarfélögunum:
Nýir kjarasamningar til þriggja ára:
Veruleg hækkun lægri launa
Launataxtar Flóafélaganna á almennum markaði hækka með nýjum kjarasamningum á bilinu 24 til 32% eða samtals um 38.000- kr. á samningstímanum. Þannig hækka laun þeirra umtalsvert sem setið hafa eftir í launaskriði undanfarinna missera og öryggisnet þeirra sem liggja hærra en taxtakerfið er tryggt. Almennt 30 daga orlof næst í fyrsta sinn á almennum markaði. Nýr endurhæfingarsjóður markar ný spor í baráttunni við örorkuna. Í samningnum er það mikið fagnaðarefni að tekist hefur að auka slysatryggingar og geta grunnfjárhæðir örorkubóta nú numið rúmlega 31 milljón króna. Samkomulag varð um nýjar leiðir til að jafna stöðu kynjanna varðandi ráðningar, starfsþróun og laun. Hækkun skattleysismarka verður um kr. 20.000 á samningstímanum að raungildi. Veruleg hækkun verður á barnabótum og rýmkun á eignatengingu vaxtabóta. Einnig náðist samkomulag um verulegt átak í menntun þeirra sem minnsta menntun hafa og starfsmenntagjald atvinnurekenda verður hækkað til að standa undir aukinni menntun.
Nánar verður greint frá þessum atriðum hér á eftir.
Taxtahækkanir launa á samningstímanum
Kjarasamningarnir fela m.a. í sér hækkun almennra launataxta um kr. 18.000 við undirskrift, kr. 13.500 árið 2009 og kr. 6.500 árið 2010. Við það er miðað að nýjar launatöflur taki gildi á hverju ári og ekki er gert ráð fyrir að heimilt verði að lækka álagsgreiðslur á móti taxtabreytingunni.
Launaþróunartrygging
1.febrúar 2008 kemur inn launaþróunartrygging. Í henni felst að þeir sem verið hafa í starfi hjá sama atvinnurekanda og hafa ekki fengið að lágmarki 5,5% launahækkun frá 2. janúar 2007 til undirritunar samninga fái það sem á vantar. Ennfremur er ákvæði fyrir þá sem skipt hafa um starf fram til 1. september 2007. Þá er hækkunin 4.5%.
Á árinu 2009 verði launaþróunartryggingin 3,5% með sömu skilmálum. Starfsmaður sem hefur skipt um starf á tímabilinu skal fá grunnhækkun án frádráttar nema um annað hafi verið samið við ráðningu.
1. janúar árið 2010 verður almenn launahækkun upp á 2,5% auk fyrrgreindra taxtahækkana.
Tekjutrygging
Tekjutrygging hækkar verulega. Hún var kr. 125.000.- fyrir árið 2007.
Hækkanir eru þannig:
1. febrúar 2008 kr. 145.000.- á mánuði
1. mars 2009 kr. 157.000.- á mánuði
2. janúar 2010 kr. 165.000.- á mánuði
Forsenduákvæði kjarasamninga
Forsendur kjarasamninganna er að kaupmáttur launa haldist eða aukist og að verðbólga fari lækkandi. Í febrúar á næsta ári verður farið yfir það hvort þessar forsendur hafi staðist. Hafi það gerst þá framlengjast samningarnir til nóvemberloka árið 2010. Hafi það hins vegar ekki gerst þá geta samningsaðilar samið um viðbrögð og þar með framlengingu samninganna eða samningar verða lausir frá og með 1. mars 2009.
Nýmæli og breytingar á kjarasamningum
Lenging orlofs
Með þessum kjarasamningi hefur náðst sá árangur að samræma fjölda orlofsdaga á almennum og opinberum launamarkaði.
25 dagar – 10,64% orlofslaun.
5 ár hjá sama fyrirtæki eða 10 ár í sömu starfsgrein.
29 dagar – 12,55% orlofslaun.
10 ár hjá sama fyrirtæki. Gildir á orlofsárinu frá 1. maí 2008
30 dagar – 13,04% orlofslaun.
10 ár hjá sama fyrirtæki. Gildir frá 1. maí 2010
Slysatryggingar launafólks
Fullyrða má að þær slysatryggingar sem eru í samningnum séu meðal mikilvægustu nýmæla hans. Nýr kafli um slysatryggingar launafólks tekur gildi frá 1. maí 2008. Um er að ræða tryggingar vegna vinnuslysa eins og þau eru skilgreind í kjarasamningnum. Þau helstu eru:
Veruleg hækkun flestra tryggingafjárhæða.
Mikil hækkun verður á örorkubótum. Þannig hækkar grunnfjárhæð örorkubóta í 11.400.000 kr. En 100% örorka hækkar í 31.350.000 kr.
Í flestum tilfellum hækka dánarbætur umtalsvert. Þannig verða dánarbætur maka 5.000.000 kr. Dánarbætur barna hækka í rúmlega fjórar milljónir vegna yngstu barnanna en minna fyrir þau sem eldri eru.
Víðtækari tryggingar
- Vátryggingin nær nú í fyrsta sinn til ungmenna á aldrinum 18-22 ára sem áttu sama lögheimili og hinn látni og voru sannanlega á framfærslu hans.
- Tryggingin gildir héðan í frá í ferðum innanlands og utan sem farnar eru á vegum atvinnurekanda.
- Þá nær tryggingin nú til slysa er verða við íþróttaiðkun, keppni og leiki á vegum atvinnurekanda eða starfsmannafélags. Undanskildar eru tilteknar íþróttagreinar sbr. gr. 8.6.3.
Samkvæmt nýja samningnum verða tryggingafjárhæðir slysatrygginga nú verðtryggðar.
Veikindi barna
Á fyrsta starfsári hjá sama vinnuveitanda skal foreldri heimilt að verja tveimur dögum fyrir hvern unninn mánuð þangað til réttur verður 12 dagar á hverju tólf mánaða tímabili til aðhlynningar sjúkum börnum sínum undir 13 ára aldri enda verði annnari umönnun ekki viðkokmið og halda þá dagvinnulaunum sínum svo og vaktarálagi þar sem það á við.
Starfsmannaviðtöl
Starfsmaður á rétt á viðtali við yfirmann einu sinni á ári um störf sín þ.m.t. frammistöðu og markmið og hugsanlegar breytingar á starfskjörum. Óski starfsmaður eftir viðtali skal það veitt innan tveggja mánaða og liggi niðurstaða fyrir innan mánaðar.
Hækkun iðgjalda atvinnurekenda í starfsmenntasjóð
Fræðslusjóðsgjaldið hækkar frá 0.15% í 0.20% frá og með 1. júní 2008
Heimild til setu á námskeiðum
Starfsmenn geta varið allt að fjórum dagvinnustundum á ári til setu á námskeiðum sem styrkhæf eru frá Starfsafli án skerðingar á dagvinnulaunum þó þannig að helmingur námsskeiðsstunda sé í þeirra eigin tíma.
Nýr endurhæfingarsjóður
Nýr endurhæfingarsjóður verður öflug stoð til að takast á við vaxandi örorku og styðja þá sem lenda í skertri vinnugetu til áframhaldandi starfa á vinnmarkaði. Heildargreiðsla inn í þennan nýja sjóð verði 0.39% af launum í heild og þar af greiða atvinnurekendur 0.13% á árinu 2008, ríkissjóður leggur til sömu upphæð á árinu 2009 og gert er ráð fyrir framlagi lífeyrissjóðanna með sama hlutfalli frá árinu 2010.
Laun í erlendum gjaldmiðli
Nýr kafli kemur inn í kjarasamninga um heimild til að fá hluta fastra mánaðarlauna greiddan í erlendum gjaldmiðli eða tengja hluta fastra mánaðarlauna við gengi erlends gjaldmiðils með samkomulagi starfsmanns og atvinnurekanda. Þá er nánar kveðið á um hvernig skuli standa að málum í slíkum tilvikum.
Áunnin réttindi vegna starfa erlendis
Nýr kafli kemur inn í kjarasamninga um að erlendir starfsmenn hér á landi svo og þeir Íslendingar sem starfað hafa erlendis flytja með sér áunnin starfstíma gagnvart réttindum kjarasamninga sem tengd eru starfstíma í starfsgrein, enda verði starfið erlendis talið sambærilegt. Í samningsákvæðinu er að finna útfærslu um það hvernig eigi að færa sönnur á áunninn starfstíma.
Trúnaðarmannanámskeið
Gerð er breyting á texta kjarasamninga um trúnaðarmannanámskeið þar sem fram kemur að trúnaðarmannanámskeið séu þau námskeið sem skipulögð eru af stéttarfélögunum og ætlað er að gera trúnaðarmönnum betur kleift að takast á við starf sitt.
Nýr kjarasamningur um stórframkvæmdir
Gerður hefur verið sérstakur samningur um kjör starfsmanna við stórframkvæmdir og kemur hann í stað svokallaðs Virkjunarsamnings, sem féll úr gildi um síðustu áramót.
Jafnréttisáherslur
Samningsaðilar hafa sameinast um áherslur í jafnréttismálum. Þar kemur fram að jafnir möguleikar kvenna og karla til starfa, starfsþróunar og launa er hagsmunamál launafólks og fyrirtækja. Í því ljósi muni aðilar vinna saman á samningstímanum að:
- Þróun vottunarferlis sem fyrirtæki geta nýtt sér og feli í sér vottun á framkvæmd stefnu um launajafnrétti og jafna möguleika kynjanna til starfa og starfsþróunar.
- Gera úttekt á launamyndun á vinnumarkaði með sérstöku tilliti til launamyndunar kvenna og karla.
- Aukin verði fræðsla um jafnrétti á vinnumarkaði með aðgengilegu kynningar- og fræðsluefni fyrir launafólk og fyrirtæki með það að markmiði að styðja starf fyrirtækja og starfsmanna í jafnréttismálum.
Vinnustaðaskilríki
Í sérstakri bókun kemur fram að unnið verði áfram að því að innleiða notkun vinnustaðaskilríkja þar sem það á við og beina fyrst sjónum einkum að byggingariðnaði. Fram kemur hvaða skilyrði vinnustaðaskilríkin þurfa að uppfylla og hvernig skuli standa að eftirliti með útgáfu og notkun skilríkjanna og hvaða upplýsingar þar þurfa að liggja til grundvallar.
Uppsögn ráðningarsamninga
Nú koma inn ákvæði varðandi rétt starfsmanna til viðtals við atvinnurekanda um ástæður uppsagnar og að hann geti farið fram á þær séu skýrðar skriflega. Fallist atvinnurekandi ekki á þá ósk starfsmanns á starfsmaður rétt á öðrum fundi með honum um ástæður uppsagnar að viðstöddum trúnaðarmanni sínum eða öðrum fulltrúa stéttarfélags síns ef starfsmaður óskar þess. Einnig er að finna ákvæði um takmörkun uppsagnarheimildar atvinnurekenda og viðurlög.
Bókun um tilkynningu til trúnaðarlæknis/þjónustufyrirtækis á sviði vinnuverndar
Samningsaðilar undirrituðu bókun um skipun viðræðunefndar sem ætlað er að ná samkomulagi um fyrirkomulag varðandi tilkynningu veikinda til trúnaðarlæknis/þjónustufyrirtækis á sviði vinnuverndar.
Bókun varðandi læknisvottorð
Samningsaðilar eru sammála um að beina því til heilbrigðisráðherra að hann beiti sér fyrir breytingu á reglum um læknisvottorð. Gerð verði krafa um sérstök læknisvottorð þegar um er að ræða langtímafjarvistir. Ef starfsmaður hefur verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða slyss í fjórar vikur samfellt skal í læknisvottorði taka afstöðu til þess hvort starfsendurhæfing sé nauðsynleg til að ná eða flýta bata.
Bókun varðandi atvinnusjúkdóma
Samningsaðilar munu sameiginlega beita sér fyrir því að sett verði reglugerð um skráningu bótaskyldra atvinnusjúkdóma. Þá kemur fram að samningsaðilar telja mikilvægt að efla rannsóknir og fyrirbyggjandi aðgerðir á sviði atvinnusjúkdóma á vettvangi Vinnueftirlits ríkisins.
Framlag stjórnvalda við gerð kjarasamninganna
Skattamál
- Persónuaflsáttur hækkar um 7.000 kr. á þremur árum umfram verðlagsbreytingar. Þetta þýðir að skattleysismörk hækka úr 95.280 í ár í 115.000 kr. árið 2010, á föstu verðlagi. Að auki hækka skattleysismörkin í samræmi við verðbólgu.
- Dregið verður umtalsvert úr tekjuskerðingum barnabóta. Í ár hækka þau mörk þegar tekjur byrja að skerða barnabætur í 120.000 kr. mánaðartekjur hjá einstæðu foreldri og í 240.000 kr. hjá hjónum. Að auki lækka skerðingarprósentur vegna annars og þriðja barns um 1% stig. Árið 2009 hækka tekjuskerðingarmörkin hjá einstæðu foreldri í 150.000 kr. og hjá hjónum í 300.000 kr.
Vöruverð
- Ríkisstjórnin ætlar að beita sér fyrir aðgerðum til að lækka vöruverð, einkum matvælaverð.
Húsnæðismál
- Húsaleigubætur hækka umtalsvert þegar á þessu ári. Þannig hækka hámarks húsaleigubætur úr 31.000 kr. á mánuði í 46.000 kr.
- Lánsvilyrðum til félagslegra leiguíbúða með niðurgreiddum vöxtum verður fjölgað í 750 á ári í fjögur ár, frá og með árinu 2009.
- Eignaskerðingarmörk vaxtabóta verða hækkuð um 35%, þegar á þessu ári.
- Stefnt verði að því að fella niður stimpilgjöld vegna lána til kaupa á fyrstu fasteign.
- Komið verður á húsnæðissparnaðarkerfi með skattaafslætti fyrir einstaklinga 35 ára og yngri.
Átak í fullorðinsfræðslu og starfsmenntun
Ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins stefna að því að ekki verði fleiri en 10% fólks á vinnumarkaði án viðurkenndrar starfs- og framhaldsskólamenntunar árið 2020. Í þessu felst að gera verður stórt átak í fræðslumálum þeirra sem ekki hafa viðurkennda starfs- eða framhaldsskólamenntun.
- Tryggt verður að allir hafi tækifæri til náms að loknu grunnskólanámi þar sem jafnræðis er gætt varðandi kostnaðarþátttöku hins opinbera.
- Reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna verða endurskoðaðar þannig að jafnræði varðandi tækifæri til náms verði tryggt.
- Stefnt verður að því að kostnaður nemenda á framhaldsskólastigi vegna skráningar- og efnisgjalda verði óverulegur.
- Framlög til símenntunar og fullorðinsfræðslu verða aukin um 300 milljónir á næstu tveimur árum.