Kristín Júlla fékk hamingjuóskir frá bæjarstjórn
Bæjarstjórn Sveitarfélagsins Garðs óskar Garðbúanum Kristínu Júllu Kristjánsdóttir til hamingju með nýfengin Edduverðlaun. Sérstaklega voru bókaðar hamingjuóskir til Kristínar við upphaf síðasta fundar bæjarstjórnar Garðs.
„Nú á dögunum var haldin uppskeruhátíð íslensks kvikmyndagerðarfólks og voru Edduverðlaun afhent fyrir afrek í tengslum við kvikmyndargerð. Við það tilefni hlaut Garðbúinn Kristín Júlla Kristjánsdóttir Edduverðlaun fyrir gervi í kvikmyndinni Vonarstræti. Það er íbúum Garðs ánægjuefni að sjá Edduna komna í Garðinn og kemur okkur sem til þekkjum ekki á óvart að Kristínu hljótist þessi heiður enda á ferðinni mjög hæfileikarík kona.
Bæjarstjórn Garðs óskar Kristínu innilega til hamingju með glæsilegan árangur og Edduverðlaunin,“ segir í sameiginlegri bókun bæjarstjórnar.