Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kristín Helgadóttir nýr leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 7. október 2015 kl. 11:01

Kristín Helgadóttir nýr leikskólafulltrúi Reykjanesbæjar

- Kveður leikskólann Holt eftir 20 ára starf sem leikskólastjóri

Kristín Helgadóttir var á dögunum ráðin leikskólafulltrúi hjá fræðslusviði Reykjanesbæjar. Kristín á að baki yfir 30 ára reynslu við störf tengd leikskólum, ýmist sem leiðbeinandi, leikskólakennari, deildarstjóri, aðstoðarleikskólastjóri og leikskólastjóri en hún hóf störf á Garðaseli sem leiðbeinandi árið 1981.

Síðustu 20 ár hefur Kristín verið leikskólastjóri á leikskólanum Holti og segir hún blendnar tilfinningar fylgja því að kveðja börnin og samstarfsfólk þar. „Það eru spennandi tímar framundan og ég hlakka til að eiga samstarf við skólasamfélagið og foreldra í bæjarfélaginu. En að sama skapi er mjög erfitt að kveðja börnin á Holti sem ég hef verið svo heppin að fá að taka þátt í að ala upp. Á Holti hefur verið stöðugur starfsmannahópur og því hef ég unnið lengi með sama fólkinu þar.“

Meðal brýnustu úrlausnarefna leikskólafulltrúa er að taka þátt í áframhaldandi mótun menntastefnu í Reykjanesbæ. „Ég mun halda áfram að vinna að framtíðarsýn Reykjanesbæjar í menntamálum. Þá finnst mér afar mikilvægt að vinna með skólunum og styrkja innviði þeirra. Stefnan er að vera í góðum tengslum við leikskólana og leikskólastjórana í hlutverki ráðgjafa.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Aðspurð um stöðu leikskólamála í Reykjanesbæ segir Kristín hana nokkuð góða. „Öll börn sem urðu tveggja ára á þessu ári komust inn á leikskóla í haust svo það eru í rauninni ekki neinir biðlistar. Við myndum þó gjarna vilja að leikskólar væru líka fyrir yngri börnin og helst að þau kæmust inn þegar fæðingarorlofi líkur. Það er eitt þeirra mála sem vert er að vinna að í framtíðinni.“

Kristín lauk leikskólakennaraprófi frá Fóstruskóla Íslands árið 1990 og dipl.Ed í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003.