Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Kreppir að í ruslinu
Fimmtudagur 4. júní 2009 kl. 15:50

Kreppir að í ruslinu


Kreppan hefur ýmsar birtingamyndir. Ein er sú að með minnkandi neyslu fellur til mun minna sorp en áður. Og það hefur áhrif á rekstur sorpbrennslustöðvarinnar Kölku í Helguvík. Heildarmagn úrgangs sem berst til stöðvarinnar minnkaði um 25% á milli ára fyrstu fjóra mánuði ársins. Á gámaplaninu hefur umfangið minnkað um 41%. Stjórn SSS hefur falið framkvæmdastjóra stöðvarinnar að móta sparnaðartillögur til að mæta þessum samdrætti auk þess að endurskoða opnunartíma gámaplana.

Málefni Kölku eru í uppnámi þar sem brestir eru komnir í samstarf sveitarfélaganna á Suðurnesjum vegna reksturs hennar. Hefur aðalfundi félagsins verið frestað af þessum sökum. Bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ eru að íhuga að draga sig út úr félaginu vegna óánægju með afstöðu Grindvíkinga um eignarhaldið í félaginu en til stóð að breyta því í hlutafélag. Sömuleiðis hafa bæjaryfirvöld í Vogum ákveðið að skoða samstarf við aðra aðila um sorphirðumál sveitarfélagsins. Rekstur Kölku hefur verið afar erfiður fjárhagslega undanfarin ár og minnkandi tekjur í ofanálag við samstarfsbresti sveitarfélaganna er ekki til að bæta ástandið.

Ein leiðin til að auka tekjur félagsins er að ganga til samstarfs við Sorpu um móttöku á brennslusorpi og hafa viðræður þess efnis staðið yfir að undanförnu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024