Krem frá Bláa lóninu tilnefnt til verðlauna
- Bestu snyrtivörur ársins á árlegri hátíð í Danmörku.
Blue Lagoon Rich Nourishing Cream er tilnefnt til Danish Beauty Awards snyrtivöruverðlaunanna. Úrslitin verða kynnt við hátíðlega athöfn á Danish Beauty verðlaunahátíðinni þann 29. apríl næstkomandi í Kaupmannahöfn. Þetta kemur fram á vísir.is.
Danish Beauty Awards verðlaunahátíðin er haldin árlega og er hún verðlaunahátíð snyrtivörugeirans í Danmörku og eru verðlaun veitt bestu snyrtivörum hvers árs að mati dómnefndar. Dómnefnd keppninar er skipuð sérfræðingum úr snyrtivöruheiminum auk fjölmiðla- og hönnunarfólks. Á meðal þeirra sem eiga sæti í dómnefndinni eru Pernille Aalund framvæmdastjóri hjá tímaritinu Aller en hún er einnig þekkt sjónvarpskona og og ræðumaður. Christian Stadil, stjórnarformaður og einn af eigendum Hummel, á einnig sæti í dómnefndinni en hann er vinsæll ræðumaður og býr yfir mikilli þekkingu í vörumerkjamálum.
Innihald, hönnun, virkni og ímynd vörumerkis er á meðal þess sem dómnefndin metur auk þess sem saga, nýsköpun og hugmyndafræði eru höfð til hliðsjónar.
„Rich Nourishing Cream er þörungakrem sem sett var á markað í ársbyrjun 2013. Kremið byggir á þörungum Bláa Lónsins, en rannsóknir sýna að þeir hafa virkni gegn öldrun húðarinnar. Það er einstaklega nærandi og veitir húðinni aukinn ljóma,“ segir Magnea Guðmundsdóttir fjölmiðlafulltrúi Bláa Lónsins spurð um kremið.
Kremið er tilnefnt sem vara sem hefur sérstöðu á markaði og er einungis dreift á útvöldum stöðum. Í Danmörku er Blue Lagoon húðvörulínan einungis fáanleg í netverslun Bláa Lónsins.