Krefst áframhaldandi reksturs Ragnarssels
Bæjarstjórn Garðs lýsir yfir vonbrigðum að Ragnarsseli hafi ekki verið tryggt fjármagn til rekstrar á næsta ári. Í ályktun frá fundi bæjarstjórnar fyrir helgi segir að niðurskurður til reksturs Ragnarsels sé vegna niðurskurðar til Svæðisskrifstofu Reykjaness sem tekið hafi ákvörðun um lokun þjónustunnar.
„Við tilfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna 1. janúar nk. er því ekki gert ráð fyrir rekstri Ragnarsels. Það er óásættanlegt fyrir fjölmarga fatlaða íbúa á Suðurnesjum og fjölskyldur þeirra. Þroskahjálp á Suðurnesjum hefur haldið úti rekstri Ragnarsels í 27 ár og yfir vetrarmánuðina nýta 16 fatlaðir einstaklingar vistun á stofnuninni og yfir sumartímann a.m.k. 40 einstaklingar. Bæjarstjórn Garðs krefst þess að við yfirfærslu á málefnum fatlaðra til Suðurnesja verði áframhaldandi rekstur Ragnarssels tryggður,“ segir í bókun bæjarstjórnar.