KREFJAST ÞESS AÐ REYKJANESBRAUT VERÐI TVÖFÖLDUÐ
Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum krefjast þess að tvöföldun Reykjanesbrautar verði flýtt, frá því sem nú er gert ráð fyrir í vegaáætlun. Ályktun um vegamál var lögð fram á aðalfundi SSS, sem haldinn var í Fjölbrautarskóla Suðurnesja um næst síðustu helgi.Þá kom fram að umferð um Reykjanesbraut hefur aukist um 8% milli áranna 1997 og 1998 og að slys á kaflanum frá Krýsuvíkurvegi til Keflavíkur hafa verið að meðaltali 40, á árunum 1992-1996. Viðbúið er að umferðaþungi muni aukast enn frekar og slysatíðni hækka, vegna fyrirhugaðrar stækkunar og aukinna umsvifa Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar, ef ekkert verður að gert.Jafnframt fór fundurinn fram á að hafinn yrði undirbúningur að Suðurstrandarvegi frá Þorlákshöfn um Grindavík, meðfram Reykjanesvita og að Höfnum. Sveitarstjórnarmenn telja brýnt að tengja saman væntanlegt Suðurkjördæmi, með Suðurstrandarvegi, sem myndi einnig þjóna atvinnulífi í kjördæminu.