Krakkarnir njóta sín á Ljósanótt
Margt er í boði fyrir börnin á Ljósanótt eins og undanfarin ár. Skessan í hellinum sem flutti til okkar á Ljósanótt 2008 verður með opinn hellinn sinn alla dagana frá kl. 10.00-17.00 og tekur á móti gestum. Hún, ásamt aðstoðarfólki sínu frá Júdódeild UMFN býður börnunum í lummur á laugardeginum frá kl. 15.00 til 17.00 eða svo lengi sem birgðir endast.
Landnámsdýragarðurinn mun loka eftir Ljósanæturhelgina og eru því síðustu forvöð fyrir gesti og gangandi að heilsa upp á dýrin. Á laugardagsmorgninum verða hestar leiddir undir börnum í garðinum frá kl.10.00 -12.00 og ekki er að efa að það verður upplifun fyrir margan ungan hestamanninn.
Víkingaheimar verða opnir samkvæmt venju og tilvalið að líta þar við enda margar spennandi sýningar í boði í húsinu. Sérstaklega má minna á goðheimasýninguna sem opnaði í vor en þar er gesturinn leiddur í gegnum þennan forna hugmyndaheim og goð og goðheimar birtast ljóslifandi á myndrænan og nýstárlegan hátt þar sem myndlist, frásögn og tónlist fléttast saman í eina heild. Bæði börn og fullorðnir hafa lýst mikilli ánægju með þessa sýningu og upplagt að nota tækifærið þessa helgi.