Krakkar noti hjálm og noti hann rétt
Slysavarnadeildir Slysavarnafélagsins Landsbjargar, í samvinnu við Sjóvá, fóru í skóla vítt og breytt um landið í liðinni viku og hittu krakka í 6. bekk grunnskóla. Þau voru frædd um mikilvægi reiðhjólahjálma, skyldubúnað reiðhjóla og hvaða umferðarmerki tengjast hjólreiðum. Hjólreiðaþraut var sett upp og gafst unglingunum kostur á að vinna vinninga með því að svara nokkrum léttum spurningum. Verkefnið heldur áfram í næstu viku þar sem fleiri skólar verða heimsóttir.
Með þessu vilja Slysavarnafélagið Landsbjörg og Sjóvá leggja sitt af mörkum til að krakkar á þessum aldri noti hjálm og noti hann rétt því oft á tíðum eru hjálmarnir ekki rétt stilltir og virka því ekki eins og skildi. Alvarlegustu reiðhjólaslysin eru höfuðáverkar og það er einfalt að lágmarka hættuna með því að nota alltaf hjálm þegar hjólað er. Gildir það bæði um börn og fullorðna.
Meðfylgjandi myndir voru teknar þegar Dagbjörg í Reykjanesbæ heimsótti skólabörn í Akurskóla í Innri Njarðvík. Fulltrúar frá Sjóvá og lögreglunni voru einnig með í för.