Krafa ASH alvarleg andstaða við lýðræði
-„Ef Thorsil stenst ekki kröfur á ekki að veita fyrirtækinu rekstrarleyfi,“ segir Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
„Ég styð hvers kyns atvinnuuppbyggingu sem stuðlar að auknum og fjölbreyttum atvinnutækifærum í Reykjanesbæ, að því gefnu að þau séu ekki íþyngjandi fyrir bæjarbúa,“ er meðal þess sem Árni Sigfússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir í svari sínu við fyrirspurn Andstæðinga stóriðju í Helguvík er varðar afstöðu bæjarfulltrúa til uppbyggingar í Helguvík.
„Upphaf reksturs United Silicon hefur verið mjög íþyngjandi fyrir bæjarbúa og í raun hrapaleg mistök að fyrirtækið fengi leyfi til að hefja starfsemi á þeim misheppnaða grunni sem það byggði. Ég fagnaði tilkomu þess en framkvæmdin er mér gríðarleg vonbrigði. Það er ekki þar með sagt að það eigi að dæma af öll kísilver,“ segir Árni.
Í fyrirspurn Andstæðinga stóriðju í Helguvík hvetja þeir þá bæjarfulltrúa sem hlynntir eru uppbyggingu kísilvera í Helguvík til að segja af sér. Árni segir þá kröfu félagsins alvarlega andstöðu við lýðræði. „Bæjarfulltrúar, löglega kjörnir, fylgja eigin sannfæringu. Mér finnst út í hött að einhverjum sé ætlað að segja af sér sem bæjarfulltrúi af því hann kunni að vera á annarri skoðun en meirihluti bæjarbúa, samkvæmt skoðanakönnun í einhverju máli. Kjörtímabili þessarar bæjarstjórnar lýkur í maí á næsta ári. Þá veita bæjarbúar næstu bæjarfulltrúum umboð sitt.“
Árni segist fylgjandi uppbyggingu Thorsil í Helguvík, svo lengi sem kísilverið standist allar kröfur. „Ef kísilver getur sinnt hlutverki sínu, að framleiða m.a. efni í umhverfisvænstu orkuframleiðslu heims, sólarkísil, án þess að valda íbúum nokkurri mengun, reyk eða óþægindum, er ég fylgjandi slíkri starfsemi. Ef Thorsil stenst allar kröfur um þetta, sé ég ekkert því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki geti verið í rekstri á Helguvíkursvæðinu og skapað íbúum vel launuð störf. Ef það stenst ekki þessar kröfur á ekki að veita slíku fyrirtæki rekstrarleyfi.“