Krabbaveislur Vitans njóta vinsælda
– Veitingahúsið Vitinn með sérstöðu
Veitingahúsið Vitinn í Sandgerði hefur skapað sér sérstöðu á meðal íslenskra veitingahúsa. Vitinn er sjávarréttastaður við höfnina í Sandgerði sem hefur getið sér gott orð fyrir krabba- og sjávarréttaveislu sem slegið hefur í geng. Veislan samanstendur af krabbasúpu í forrétt og grjótkrabba, öðuskel, bláskel, beitukóng og rækju í aðalrétt.
Hjónin Stefán Sigurðsson matreiðslumeistari Vitans og Brynhildur Kristjánsdóttir framkvæmdastjóri eru í viðtali við Sjónvarp Víkurfrétta í kvöld á sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þar ræða þau hvernig aukning í ferðamannastraumi til landsins hefur skilað sér á vitann en veitingastaðurinn er mikið bókaður langt fram á næsta ár. Þá skiptir engu hvort um er að ræða jól eða áramót, stórir hópar eru í mat alla daga.
Fjölmargir leggja leið sína á Vitann til að gæða sér á krabba- og sjávarréttaveislunni og koma margir langt að. Vinsælt er hjá erlendum ferðamönnum að annað hvort byrja eða enda ferðalagið um Ísland með sjávarréttaveislu í Sandgerði. Margir vilja gera vel við sig og hafa óskað eftir því að fá að lenda þyrlum við veitingastaðinn. Því hafa þau hjón á Vitanum óskað eftir því við bæjaryfirvöld í Sandgerði að útbúið verði svæði í nágrenni hafnarinnar þar sem hægt sé að taka á móti þyrlum.
Allt um grjótkrabbann og sjávarréttaveisluna í Sandgerði í Sjónvarpi Víkurfrétta í kvöld á ÍNN og vf.is kl. 21:30.