Krabbamein kemur öllum við
- Fólk deilir reynslu sinni af krabbameini
Kraftur, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, boðar til átaks dagana 17. janúar – 4. febrúar nk. Tilgangur átaksins er að vekja athygli á málefnum ungs fólks með krabbamein og aðstandenda og afla fjár til að halda úti víðtækri þjónustu félagsins. Með átakinu vill Kraftur benda á þá staðreynd hvað krabbamein snertir marga með einum eða öðrum hætti. Ár hvert greinast 70 einstaklingar á aldrinum 18-40 ára með krabbamein og þess má geta að þriðjungur Íslendinga fær krabbamein einhvern tímann á lífsleiðinni.
Lífslíkur þeirra sem greinast eru þó umtalsvert betri en áður og því mun fleiri sem lifa eftir baráttu sína við krabbamein. Þess má geta að síðustu 45 árin hefur lifun (þeir sem lifa 5 ára eða lengur eftir greiningu) aukist um 25% hjá ungu fólki. En þrátt fyrir að margir sigrist á krabbameininu, er það alltaf mikið áfall fyrir einstaklinginn sjálfan, fjölskyldu hans og vini. Þá skiptir máli að félag eins og Kraftur sé til staðar og geti stutt fólk í þessum sporum. Hvort sem um er að ræða sálfræðiþjónustu, jafningjastuðning, endurhæfingu, fjárhagslegan stuðning eða styrk til lyfjakaupa.
Krabbamein kemur öllum við og til að sýna fram á það fékk Kraftur í lið með sér 22 einstaklinga til að stíga fram og deila þeirri reynslu hvernig krabbamein hefur snert þá. Birtar verða myndir af þessum ólíku einstaklingum með sín skilaboð skrifuð á spjald á samfélagsmiðlum sem og öðrum miðlum dagana 17. janúar til 4. febrúar. Kraftur hvetur almenning til að deila af sinni reynslu til að sýna enn fremur fram á hvað krabbamein snertir marga - hægt er að nota #krabbameinkemuröllumvið.