Kósýkvöld í des er nýjasti jólasmellurinn
„Hver vill ekki eiga kósýkvöld í desember,“ spyr lagahöfundurinn Gunnar Ingi Guðmundsson en hann hefur gefið út nýtt jólalag sem ber titilinn Kósýkvöld í des. Textinn er eftir Gústaf Lillendahl og er flutt af þeim Rakel Pálsdóttur og Kjalari Marteinssyni sem vakti athygli í síðustu idol stjörnuleit og söngvakeppni sjónvarpsins.
Gunnar Ingi var að gramsa í símanum sínum. „Ég var að gramsa í voice memó í símanum mínum þegar ég rakst á þessa lagahugmynd og ákvað að vinna meira með hana. Það tók mig þónokkra stund að klára lagið, sumir kaflar voru erfiðari en aðrir en fljótlega heyrði ég lagið fyrir mér sem jólalag. Ég fékk Gústaf Lillendahl til að semja textann, við köstuðum hugmyndum á milli okkar varðandi þema og útkoman varð Kósýkvöld í des. Mig langaði til að hafa lagið í nútímalegum 80´s stíl og var mjög ánægður með að fá Rakel og Kjalar til að syngja lagið. Ég þekki auðvitað Rakel vel en við gerðum saman jólaplötu í fyrra og Kjalar er ungur og upprennandi söngvari sem á framtíðina fyrir sér. Ég hef unnið mikið með Stefáni Erni Gunnlaugssyni en hann útsetti með mér og sá um upptökur og hljóðblöndun.
Annars hefur verið nóg að gera, ég er nýbúinn að gefa út plötuna Eyðibýli og svo fór ég fyrir hönd Stefs á Sync-camp lagasmíðabúðirnar í Póllandi þar sem áhersla er lögð á að semja tónlist fyrir kvikmyndir og auglýsingar. Þetta var mjög gaman og frábær reynsla fyrir mig sem mun nýtast mér í framtíðinni,“ sagði Gunnari Ingi.