Köstuðu flugeldi inn um bréfalúgu sem kveikti í mottu
Nokkur ungmenni urðu uppvís að því að kasta flugeldi inn um bréfalúgu á íbúðarhúsnæði í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum um síðustu helgi. Eldur kviknaði í mottu í anddyrinu en húsráðandi var snar í snúningum, braut mottuna saman yfir flugeldinn og kastaði henni út.
Lögreglumenn ræddu alvarlega við ungmennin og aðstandendur þeirra. Báðu þau húsráðendur síðan afsökunar en tilkynning um athæfi þeirra var send til barnaverndar.